Þynning á neðri hluta legs?

Spurning:

25 ára – kona

Hæ hæ og takk fyrir frábæra síðu 🙂

Ég er að spá hvort þið gætuð frætt mig aðeins um verulega þynningu á neðra segamenti!

Hvað er það nákvæmlega?

Er einhver áhætta sem fylgir þessu á meðgöngu og í fæðingu næsta barns?

Eru minni líkur á að fá að eiga "eðlilega" eftir að hafa lent í þessu?

Í skýrslunni frá því ég átti son minn fyrir sjö árum stendur: veruleg þynning er á neðra segamneti sem bungar framm.

Sú fæðing endaði með bráðakeisara.

Einnig stendur veruleg hætta er á samdráttahring.

Ég skil hvorki upp né niður í þessu.

Með von um skjót svör; kveðja bumban 🙂

Svar

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Þegar talað er um neðra segment legsins er átt við svæðið fyrir ofan leghálsinn. Legið skiptist í legháls, sem liggur niður í leggöngin, neðri hluta legsins (neðra segment),sem liggur þar fyrir ofan og efri hluta legsins (efra segment) sem liggur frá miðju þess og myndar botn legsins. Á meðgöngu stækkar legið og vöðvafrumunum fjölgar, sérstaklega í efri hlutanum. Neðri hlutinn helst tiltölulega þunnur og æðarýr og þess vegna er skorið í hann þegar gerður er keisaraskurður. Í fæðingunni dregst legið saman til að ýta barninu út.

Frumur legvöðvans, sérstaklega efri hlutans, hafa þá sérstöðu ólíkt öðrum vöðvafrumum, að þegar þær hafa dregist saman og slakna á ný þá slakna þær ekki alveg til fulls heldur styttast og þykkna við hverja hríð. Við það ýtist barnið niður og leghálsinn dregst upp yfir höfuð þess líkt og rúllukragi. Nái barnið ekki að ýtast út um leghálsinn, t.d. vegna stærðar eða legu þess, dregst leghálsinn ekki upp og það kemur sífellt meira tog á neðri hluta legsins þannig að hann þynnist en sá efri þykknar og þykknar þannig að á endanum myndast vöðvasamdráttarhringur á mótum efri og neðri leghlutanna. Sé ekki gripið inn í getur þetta endað í því að neðri hluti legsins rifnar undan togi efri hlutans.

Þess vegna er gerður keisararskurður þegar sýnt þykir að barnið geti ekki fæðst um fæðingarveg. Þessar aðstæður eru þó fremur sjaldgæfar og afar sjaldgæft nú á tímum að legvöðvinn rifni í fæðingu.

Vona að þetta svari spurningu þinni.

Kveðja,

Dagný Zoega

ljósmóðir