Cipramil og virkni skjaldkirtilshormóns?

Spurning:
Góðan dag.
Ég er búin að vera á Zoloft í nokkur ár og svo fyrir einu og hálfu ári síðan byrjaði ég á Levaxin skjaldkirtilshormoni. Í síðustu viku kom það svo í ljós að það eru efni í Zoloft sem virka gegn Levaxini þannig að það hefur ekki virkað neitt og ég hef þyngst heil ósköp. Læknirinn minn setti mig á Cipramil í staðin fyrir Zoloft, er það betra? Núna er ég bara alveg rosalega hrædd um að það sama gerist aftur. Með von um svar

Svar:
Það er rétt hjá þér að sertralín sem er virka efnið í Zoloft getur dregið úr virkni levótýroxíns sem er virka efnið í Levaxin.  Þessi milliverkun virðist ekki vera til staðar af öðrum geðdeyfðalyfjum.  Þú átt því ekki að þurfa að hafa neinar áhyggjur af því að taka Cipramil. Það á ekki að hafa nein áhrif á virkni skjaldkirtilshormónsins.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur