Decutan-meðferð?

Spurning:
Komiði sæl.
Ég vil byrja á því að hrósa síðunni ykkar, hún er alveg frábær. En mín fyrirspurn er þessi: Ég er á lyfinu Decutan (Roaccutan). Ég hef verið að taka það undanfarna 3 mánuði. Það stendur utan á lyfjapakkanum að ekki sé ráðlegt að fara í meira en 4 mánaða meðferð. Húðlæknirinn minn setti mig á þetta í 6 mánuði, á það að vera óhætt? Einnig var ég svo að pæla í áfenginu. Hversu langur tími þarf að líða eftir að ég hætti á lyfinu þar til ég má drekka áfengi í einhverjum mæli aftur? Ég hef ekkert snert áfengi í meðferðinni og hef heyrt að það megi víst ekki fyrr en eftir meðferð.
Svo að lokum er það sólarljósið. Húðin á víst að verða viðkvæmari fyrir sólarljósi á meðan meðferð stendur. Er það einnig þannig eftir meðferð? Má ég fara í ljósabekki og því um líkt eftir meðferðina? Ég vona að ég fái svar við þessum litlu fyrirspurnum. Þeir sem standa á bak við þessa síðu eiga svo sannarlega mikið hrós skilið! Með fyrirfram þökk.

Svar:

Í fylgiseðli með Decutan segir: „Eðlilegur meðferðartími er 4-6 mánuðir. Í þeim tilvikum þegar langtímameðferð reynist nauðsynleg getur læknirinn hugsanlega gert tveggja mánaða hlé á meðferðinni öðru hvoru.“Ef eitthvað annað stendur utan á pakkanum er það einfaldlega ekki rétt.Lyfið er horfið að mestu úr blóðrásinni eftir hálfan mánuð. Óhætt er því að neyta áfengis viku til 10 dögum eftir að notkun lyfsins er hætt. Sama á við um sólarljós.

 

 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur