Decutan

Fyrirspurn:

Góðan dag og takk fyrir góðan vef.

Í mars og apríl var ég á Decutan kúr. Ég var á vægasta skammti, s.s ein
tafla á dag en upplifði samt fullt af aukaverkunum.

En spurningin mín er þessi hvenær er óhætt fyrir mig að reyna að verða
ófrísk ?

Það stendur á fylgiseðlinum að ekki eigi að reyna í minnst mánuð eftir að
töku lyfsins hættir. Ég byrjaði bráðlega eftir að ég hætti að taka lyfið að
taka fjölvítamíni og sé núna að það er A-vítamín í því og þar sem verkunin
(af Decutan) er svolítinn tíma að fara úr líkamanum er ég örugglega með
fullt af A-vítamíni í líkamanum.

Ég er s.s svoltið hrædd við þetta þar sem ég veit þetta veldur heilaskemmd
hjá fóstri.

Ég er ekki ófrísk núna en langar að fara að reyna bráðlega og hef því
áhyggjur af áhrifum þessa lyfs og hvort það teygir anga sína eitthvað langt
áfram.

Takk kærlega fyrir.
Með von um svar:)

Aldur:
28

Kyn:
Kvenmaður

Svar:

Sæl.

Decutan inniheldur virka efnið isotretinoin sem er afbrigði af A-vítamíni.  Vegna þessa er ekki æskilegt að taka inn A-vítamín samhliða Decutan meðferð.  Þar sem þú hefur verið á mjög litlum skammti myndi ég ekki hafa áhyggjur af því að hafa tekið inn fjölvítamín að auki þar sem það inniheldur ekki A-vítamín í miklu magni.  Haldirðu hinsvegar áfram á Decutan myndi ég mæla með fjölvítamíni án A og D-vítamína en þær töflur fást einnig í verslunum.

Það er augljóslega búið að upplýsa þig um áhættuna sem fylgir inntöku Decutans á meðgöngu og er það vel.  Alls ekki á að taka lyfið við slíkar aðstæður og ekki skal reyna að verða ófrísk í fimm vikur eftir lok meðferðar en þá eiga konur að gangast undir síðasta þungunarprófið til að útiloka þungun.  Eftir þann tíma er óhætt að reyna að koma af stað þungun.

Vonandi svarar þetta spurningu þinni.

Þórir Benediktsson
Lyfjafræðingur