Deilur um verkaskiptingu?

Spurning:
Ég og maðurinn minn höfum verið saman í 9 ár og eigum þrjú börn (elsta var að byrja í skóla). Ég er heimavinnandi en maðurinn minn vinnur mikið. Ég tel brýnt að við fáum einhverjar ráðleggingar, en við höfum oft reynt að tala um
samband okkar og reynt að bæta það, en alltaf fer allt aftur í sama farveg. Þannig er að ég hugsa um heimilið og börnin og hann virðist ekki hafa neina tilfinningu fyrir öllu því sem hér þarf að gera. Á virkum dögum reyni ég að vera búin að þrífa og taka til, eins að hafa sem minnstan þvott um helgar svo að við fjölskyldan getum verið sem mest saman, en það þarf auðvitað að
hugsa um börnin, hafa til mat og þar fram eftir götunum.

Það er eins og hann sé ekki í neinu sambandi við allt sem þarf að gera á heimilinu og ég þarf í sífellu að vera að biðja hann um að gera þetta og hitt, sem stundum er gert eftir dúk og disk, þegar hann má vera að því (og kemst í pásu úr tölvunni…). Ég er oft pirruð og reið út af þessu, finnst ég alltaf vera ein að sjá um allt og hugsa um allt hér heima, oft bitnar það á börnunum, og ef ég tala við hann lofar hann bót og betrun, en aldrei gerist neitt. Að sama skapi finnst mér mjög erfitt að stunda kynlíf með honum þar sem ég er oft sár og svekkt við hann…. Þar af leiðandi verður hann þá oft "fúll" við mig út af því. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að gera, þetta er orðin einhvers konar vítahringur sem við komumst ekki út úr. Því má bæta við að við fluttum til útlanda fyrir nokkru og því hefur verið mikið álag á allri fjölskyldunni. Ég veit ekki hvernig ég á að tala við hann svo að ástandið breytist varanlega til batnaðar. Oft höfum við reynt, en aldrei batnar neitt!

Svar:
Blessuð og sæl. Þetta með tiltektirnar er nú ekkert smá mál skal ég segja þér. Það eru ótrúlega mörg pör sem ég hitti og spjalla við sem eru einmitt að láta heimilshaldið fara í taugarnar á sér. Þau geta ekki komið sér saman um hver á að gera hvað og hvenær. Þegar svo eitthvað er gert, þá er það gert í fýlu. Og báðum þykja húsverkin hundleiðinleg, segja að hinn aðilinn sé alltaf að tuða og þykjast hafa vit á hvernig á að gera hlutina og geri svo aldrei neitt. Svo eru allir líka þreyttir og pirraðir eftir vinnuna og hafa nóg annað að gera en að taka til finnst þeim. Þannig að það verða oft mikil rifrildi út af þessum hlutum.

En spurningin er hvort að það þurfi nú endilega að vera svona leiðinlegt að gera húsverkin? Fyrst skulum við hafa eitt á hreinu. Ef báðir aðilar í sambandinu vinna úti er það auðvitað sjálfsagður hlutur að báðir leggi eitthvað til heimilishaldsins. Og þó annar makinn sé heima, t.d. með lítið barn eða börn, þá þýðir það ekki að hinn sé algerlega stikk frí og komi heimilið ekkert við. Sambúðin er nefnilega samvinnuverkefni,nákvæmlega eins og það að ala upp börn og að rækta ástarsambandið. Þetta getur aldrei bara annar aðilinn gert, báðir verða að leggja sitt að mörkum.

En það var þetta með leiðindin. Þurfa heimilisverkin að vera hundleiðinleg eins og þau greinilega eru hjá ykkur? Ég held reyndar ekki. Það ætti nefnilega að geta verið bara þræl- skemmtilegt að takast á við þau.

Það fyrsta sem þið ættuð að gera er að setjast niður í friði og ró, þegar börnin eru ekki að trufla og bæði hafa nægan tíma. Síðan skulið þið gera lista yfir húsverkin. Það þarf auðvitað að kaupa inn, elda mat, taka til, ryksuga, skúra, þvo þvotta og klósett, þurrka af og vaska upp bara svo dæmi sé tekið. Skiptið síðan á milli ykkar verkunum ákveðinn tíma í senn, t.d.
næsta mánuðinn. Hvort á að elda (alla daga vikunnar), ryksuga, skúra og svo framvegis í mars? Passið bara að húsverkunum sé deilt jafnt út. Svo getið þið sest niður í lok þessa tímabils og farið yfir listann aftur saman. Þá getið þið skipt aftur ef þið viljið, nú eða haldið áfram með sömu verkin ef þið eruð sammála um það. Sumum finnst eitt skemmtilegra en annað.

Hvort ykkar ber ábyrgð á sínum hluta húsverkanna og hinn aðilinn á ekki að vera að skipta sér af eða setja út á það. Þannig losnið þið við allar deilur um hver á að gera hvað. Þetta hafa mörg pör reynt og gefist alveg ótrúlega vel.

Og til að gera þetta nú allt pínulítið skemmtilegt, væri þá ekki ráð að koma sér upp ákveðnum föstum tiltektardegi í vikunni? Tiltektardaginn er það sameiginlegt fjölskylduverkefni að taka til. Börnin hjálpa líka til eins og þau geta, t.d. með herbergin sín, og venjast þá við að húsverkin eru einnig þeirra hlutverk. Það er of seint að kenna slíkt þegar börnin eru orðin að unglingum! En lítil börn hafa fljótt gaman að þessu. Svo þegar fjölskyldan er búin að taka til saman, þá er hægt að launa öllu liðinu dugnaðinn, t.d. með því að gera eitthvað sem allir hafa gaman að (fá sér ís, fara í göngutúr eða sund, baka heimatilbúna pissu eða bara hvað sem er). Þannig getur tiltektardagurinn orðið skemmtilegur fjölskyldudagur og góð fjölskylduhefð.

Sr.Þórhallur Heimisson.