Dicykloverihydroklorid áfram eða?

Spurning:
Sonur okkar er að verða 3 vikna gamall núna. Við höfum gætt varúðar með matarræði og höfum prófað að gefa honum miniform dropana sem virtust einungis virka lítilega fyrstu nóttina.
Fyrir einni viku: Hann vaknaði yfirleitt um 1 á nóttunni og hætti ekki að gráta fyrr en um 7 leytið um morguninn, hann herptist allur saman þegar hann fór að gráta og kjökraði lítillega á milli krampa í maga. Við ákváðum því að fara með hann til læknis vegna þess að hann virtist vera virkilega kvalinn á næturnar. Við fengum lyfseðil upp á dicykloverinhydroklorid sem við áttum að prófa að gefa honum í eina viku, 2.5 ml-5ml tvisvar á dag. Viti menn, þetta virkaði eins og í sögu hann hefur sofið vel á næturnar og verið hress á daginn.
Viku seinna: Hinsvegar áttum við að hætta með hann á lyfinu eftir eina viku, og er þetta fyrsti dagurinn hans núna án lyfja og hann hefur grátið mikið og fengið verki. Við ætlum okkur að tala við lækni á morgun og athuga hvort hann megi halda áfram á þessum lyfjum. En við vorum forvitin um skaðsemi þessa lyfs, því við sáum að þetta lyf má ekki nota á börn yngri en 6 mánaða og við höfum verið með hann á þessu lyfi 2-3 vikna gamlan, og á minni skammti en venja er.
Hvernig ráðleggur þú okkur með framhaldið ?

Svar:
Dicykloverihydroklorid er ekki skráð lyf á Íslandi og reyndar ekki annars staðar á Norðurlöndunum. Gjöf þess og notkun er því samkvæmt sérstakri undanþágu sem læknirinn sækir um sérstaklega fyrir hvern sjúkling. Notkunin er þannig algerlega á ábyrgð læknisins. Dicykloverihydroklorid er svokallað andkólínergt lyf sem virkar gegn boðefninu acetýlkólíni og virkar þannig gegn m.a. krömpum í meltingarfærum. Það getur einnig haft áhrif á aðra líkamsstarfsemi svo sem valdið þurrki í slímhúðum, þvagtregðu, þokusýn o.fl. Það að framleiðandinn taki fram að lyfið sé ekki ætlað börnum yngri en 6 mánaða þýðir fyrst og fremst að þeir hafa ekki gert rannsóknir á notkun þess hjá yngri börnum. Þeir taka því ekki ábyrgð á notkuninni. Notkun lyfsins hjá yngri börnum byggir hins vegar á reynslu lækna af henni. Í öllu falli er það mjög mikilvægt að fylgja í einu og öllu því sem læknirinn ráðleggur við notkunina á þessu lyfi.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson, lyfjafræðingur