DMSO (dímetýl súlfoxíð)?

Spurning:
Sæl öllsömul þarna á doktor.is og til hamingju með þennann glæsilega vef.
Mín fyrirspurn er svohljóðandi: Í sambandi við grein hjá ykkur (Millivefjablöðrubólga (interstitial cystitis) eftir Sólveigu Dóru Magnúsdóttur, læknir ( http://www.doktor.is/grein/efni/grein.asp?id_grein=1308&flokkur=1&firstletter=I  ) að þá er talað um lyf ( DMSO (dimethylsulfoxide) ) en ég fann ekkert meira um þetta lyf hjá ykkur á vefnum. Ég er forvitinn að vita eitthvað meira um þetta lyf t.d. er þetta lyfseðislsskylt, hverjar eru aukaverkanir þess og hvar er hægt að fá það o.s.frv.? Ég er búinn að lesa mér aðeins til með þetta ,,lyf" og er bara enn forvitnari að vita hvað þið hafið að segja.
Einn forvitinn.

Svar:

DMSO (dímetýl súlfoxíð) er velþekkt lífrænt leysiefni unnið úr trjám. Það hefur þann eiginleika að smjúga mjög greiðlega í gegnum húð og inn í vefi líkamans og virðist geta tekið þannig með sér ýmis önnur efni. Þeir eru til sem vilja meina að þetta efni sé allra meina bót eða því sem næst. Hins vegar hafa fáar viðurkenndar rannsóknir verið gerðar á verkun efnisins. Eina viðurkennda notkun DMSO sem lyf er einmitt sem skolvökvi við millivefjablöðrubólgu.
Það er ekki á skrá hér á landi sem lyf og ekki heldur á hinum Norðurlöndunum. Það hefur þó eitthvað verið flutt inn á sérstökum undanþágum fyrir einstaka sjúklinga hér á landi undir nafninu Rimso-50.Ekki er nákvæmlega vitað hverig DMSO virkar á þennan sjúkdóm en talið er að það sé bæði bólgueyðandi og dragi úr verkjum. Upplýsingar um sjúkdóminn og DMSO er að finna á þessari slóð: http://www.ichelp.com/TreatmentAndSelfHelp/DMSO.html.
Hvort DMSO eigi eftir að vinna sér sess sem lyf við fleiri sjúkdómum er ekki gott að segja. Framtíðin mun leiða það í ljós. Mikill fjöldi fólks um allan heim helgar sig baráttunni fyrir að fá viðurkennt að ýmiss konar efni, plöntur o.s.frv. hafi þá verkun sem þeir trúa á. Oft líkist þessi barátta ofsatrú frekar en vísindum. Þetta virðist jafnvel eiga við um DMSO og fylgjendur þess eins og sjá má þegar leitað er á netinu. 
Ítarlegra og dýrra rannsókna er krafist af yfirvöldum lyfjamála til að fá efni viðurkennt sem lyf. Þetta er gert til þess að tryggja eins og hægt er að verkun, réttir skammtar, aukaverkanir, milliverkanir, öryggi og annað sé þekkt áður en viðurkennd notkun getur hafist. Þetta ferli getur vissulega tafið að góð lyf komist í notkun, en þetta dregur einnig úr hættunni á að vörur með litla sem enga verkun eða sem verra er, beinlinis heilsuspillandi, fari á markað.  

 

Finnbogi Rútur Hálfdánarson
lyfjafræðingur