Doði í fingrum eftir fæðingu

Spurning:

Ég átti barn fyrir 10 dögum og ég er að velta fyrir mér hvort doði í fingrum og verkir í liðum sé algengur fylgikvilli og þá hvað lengi eftir fæðingu? Með fyrirfram þökk.

Svar:

Sæl og til hamingju með barnið.

Dofi og liðverkir eru ekki eðlilegur fylgikvilli fæðingar. Hins vegar getur bjúgur orsakað dofa og verki í liðum í höndum og ökklum, en venjulega hafa konur þá fundið fyrir því á meðgöngunni og það lagast yfirleitt fljótlega eftir fæðinguna. Eins getur skortur á steinefnum valdið dofa. Ef þetta hefur ekki lagast núna ættirðu að hafa samband við lækni til að ganga úr skugga um að engir sjúkdómar séu að hrjá þig.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir