Dóttir mín vaknar upp með látum?

Spurning:
Mig liggur forvitni á að vita hvað getur verið að hrjá dóttur mína sem er rúmlega 2 ára. Hun vaknar upp á kvöldin og á næturnar með þvílíkum látum. Ég næ engu sambandi við hana. Stundum tek ég hana upp og held henni með valdi og reyni að vekja hana. Stundum fer ég með hana á klósettið. T.d í gærkveldi kallaði hún eitthvað sem ég náði ekki hvað var og svo vaknaði hún og sparkaði í allar áttir og sagði bara "nei nei". Ég tók hana upp og hún ýtti mer bara frá sér. Ég lagði hana aftur niður og þá varð hún alveg brjáluð og sparkaði og sparkaði. þá tók ég hana aftur upp og fór með hana á klósettið, þar sat hun og hélt áfram að sparka alveg geðvond og pirruð. Þegar hún var búin að pissa fór ég með hana inn í sitt rúm og þá sofnaði hún fljótlega. En stundum neyðist ég til að taka hana fram í sófa og reyni að vekja hana. því það eru svo ofboðsleg læti í henni. Þó að ég nái að vekja hana vill hún ekkert tala við mig.

Hæun er mjög dugleg, pissar aldrei í sig, fer sjálf á klósettið ef hun vaknar við það. Hætti með bleiju rétt rúml 2 ára. Hún er alveg farin að tala, eða svo að segja. Mjög dugleg stelpa. Hún þarf reyndar lítið að sofa, er svona kvöldmanneskja. En hun er nú alltaf sett inní rúm um kl 7.30-8.00. það getur nu tekið tíma fyrir hana að sofna, og þar af leiðandi er hún þreytt á morgnana.

Ég yrði alveg ofsa fegin því að fá einhver ráð útaf stelpunni minni.

Svar:
Hér gæti verið um fyrirbæri að ræða sem heitir Næturskelfing (pavor nocturnus). Um 2% barna á aldrinum 1 til 8 verða fyrir þessu en yfirleitt eldist það af þeim áður en þau verða 12 ára, algengast hjá 3-5 ára börnum. Þetta er algengara hjá strákum en stelpum og gerir sérstaklega vart við sig ef barnið býr við mikla streitu eða er mjög þreytt. Þú ættir kannski að skoða þá þætti sérstaklega og reyna að draga úr þeim.

Ef um næturskelfingu er að ræða verður hennar yfirleitt vart eftir að barnið hefur sofið í um eina og hálfa klukkustund (er á 3. eða 4. stigi svefns) og getur varað í 10-30 mínútur. Barnið sest stundum upp í svefni, öskrar og hleypur um. Sumum börnum stendur svo ógn af einhverju í herberginu. Hjartsláttur verður hraður og barnið svitnar e.t.v. Barnið er hrætt en það er erfitt að vekja það eða hugga, augun opnast að það starir tómum augum. Barnið man svo ekki eftir því sem gerðist um morguninn.

En hvað áttu að gera?

Haltu alltaf ró þinni. Róaðu barnið niður eftir megni. Kveiktu ljósin svo barnið nái betur að átta sig á aðstæðum. Segðu því að allt sé í lagi, það sé heima, þú sért hjá því. Talaðu lágt og bíðlega og endurtaktu þetta í sífellu. Ef þú reynir að hrista barnið eða hrópa á það lengir það bara kastið og barnið vaknar ekkert fyrr við það. En þú þarft líka að huga að öryggi þess, gæta þess að það detti ekki fram úr eða niður stiga, hlaupi á veggi eða skaði sig á einhverju í herberginu og þess háttar. Reyndu að koma því blíðlega aftur upp í rúm. Þú ættir líka að láta barnfóstrur vita af þessu og lýsa þessum viðbrögðum. Svo gæti reynst vel að ræða við barnið, að degi til, hvað það óttast. Er einhver ógn í daglegu lífi þess?

Gangi þér vel Reynir Harðarson sálfræðingur S: 562-8565