Ég er 18 ára og langar að eignast barn

Spurning:

Sæl og blessuð.

Ég er nýorðin 18 ára og er búin að vera í nokkur ár með sama kærastanum! Erum við of ung til að eignast barn?
Vonandi fæ ég svar sem fyrst.

Með kveðju og þökk fyrir frábæran vef.

Svar:

Sæl.

Áður en að því kemur að verða foreldrar er ýmislegt sem þarf að hugsa um. Þetta er ekki bara spurningin um að hafa verið svo og svo lengi með sama stráknum heldur er þetta einnig spurning hvort maður hafi nóg að gefa litlu (og síðar stóru) barni.

Áður en til ábyrgra barneigna kemur þarf að vera jafnt líkamlega sem andlega og ekki síst félagslega tilbúinn. Það er mikill þroskamunur á manni sem 18 ára eða 24 ára. Hafið þið t.d. hugsað um það hvað það felur í sér að vera foreldri? Eruð þið tilbúin að láta ýmislegt á móti ykkur, t.d. hætta að fara út á kvöldin, sleppa djamminu? Sýna aðhald í fjármálum? Þola andvökunætur með grátandi barni? Ertu tilbúin til að vera með barnið á brjósti í a.m.k. 6 mánuði? Taka þátt í foreldrastarfi á leikskólanum og síðar skólanum? Þurfa e.t.v. að hætta í námi og geta ekki unnið langan vinnudag eða við það sem hugurinn stefndi til? Hvernig eruð þið undir það búin að barnið sé e.t.v. ekki heilbrigt? Hvernig eru fjármálin? Getið þið boðið barninu öruggt húsnæði? Eruð þið bæði í öruggu starfi með nægar tekjur til að sjá fyrir ykkur sjálfum og barninu? Hvernig er með líkamann, er hann nægilega hraustur til að bera barn? Hvað með t.d. reykingar og áfengisnotkun? Borðarðu skynsamlega og tekurðu bætiefni? Hreyfir þú þig reglulega innan skynsemismarka?

Skynsamlegast þætti mér að þú biðir í nokkur ár með barneignirnar. Það verður nefnilega ekki aftur snúið þegar barn er komið í heiminn. Og ef þig langar kannski að gera eitthvað spennandi, ferðast eða mennta þig, eftir einhver ár, þá er svo erfitt að finna leiðir til þess þegar maður á barn. Það er ekki heldur skynsamlegt að eignast barn bara af því maður veit ekki alveg hvað mann langar að gera í lífinu. Svo þurfa báðir foreldrar að taka þátt í þessari stóru ákvörðun sem það er að eignast barn. Það er ekki heiðarlegt gagnvart kærastanum að verða ólétt án hans vilja og ekki heldur gagnvart barninu. Svo hugsaðu þig vel um og ræddu þessi mál við kærastann þinn og þá sem standa þér næst, s.s. foreldra þína.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir