Ég er að velta fyrir mér áfallaröskun og þunglyndi

Spurning:
Ég varð fyrir áfalli nú í janúar,afleiðingarnar af því hafa þróast út í þunglyndi.
Í maí leitaði ég til geðlæknis,hann bauð mér lyf sem ég vildi þá ekki þiggja. Ég vildi sjá aðeins lengur til.
Seinna frétti ég svo af náttúrulyfinu Modigen (Jónsmessurunna) og tók það í rétt rúman mánuð. Það lagaði líðan mína heilmikið.
Ég hætti að hafa það ég hafði orðið fyrir á heilanum og velta því fyrir mér og leið á allan hátt mun betur.
Hins vegar fór allt í fyrra horf eftir að ég hætti að taka lyfið. Stöðug grátköst og ég velti mér upp úr því sem kom fyrir.

Því langar mig að spyrja ykkur aðeins.
Getur verið að ég hafi ekki tekið lyfið nógu lengi? hafið þið reynslu af þessu náttúrulyfi? Hversu lengi á að taka það til að ná árangri? Lækna þunglyndislyf sem læknar ávísa kvillann eða má maður búast við því að verða á lyfjum það sem eftir er? Hversu langan tíma haldið þið að það taki? Ég held að mitt þunglyndi sé á skalanum vægt til meðal.

Hvert er hægt að leita til geðlækna á LSP annað en á bráðamóttökuna þar sem maður greiðir 2000 kr fyrir skiptið? er einhver göngudeild?

Svar:
Því miður hef ég ekki reynslu af þessu lyfi. Lyfjagjöf við þunglyndi getur reynst nauðsynleg en ein og sér eru þau oft ekki nóg. Það er líka mikilvægt að fá tækifæri til að ræða málið hjá geðlækni eða sálfræðingi til að fara á bak við vandamálið og vinna með það til að bæta líðan. Sumir geðlæknar vinna með dáleiðslu og það mun geta minnkað þörf á lyfjagjöf. Hér á Túngötunni eru sjálfshjálparhópur þunglyndis sem þú gætir kynnt þér og ert auðvitað velkomin í.

Þar gefst líka möguleiki á að ræða líðan og aðstæður og heyra um aðra sem getur gefið manni nýja sýn á eigin mál. Einnig er mikið notuð í dag svokölluð hugræn atferlismeðferð við þunglyndi og kvíða, m.a. á Reykjalundi og á göngudeild geðdeildar Landspítala. Það er oftast hópmeðferð en einnig eru þó nokkrir sálfræðingar sem vinna á þennan hátt í viðtölum. Þarna er m.a. verið að vinna með það að ná tökum á neikvæðum hugsunum og skilar oft góðum árangri á tiltölulega stuttum tíma.

Fjölskylduþjónustan Lausn, Sólvallagötu 10 er að veita viðtöl Reykvíkingum að kostnaðarlausu þar er unnin lausnamiðuð fjölskyldu og einstaklingsmeðferð, einnig hópavinnu og námskeið. Sími 552 5881.

Göngudeild geðdeildar er á sama stað og bráðaþjónustan, það er líka göngudeild á Kleppi og Hvítabandinu en viðtalið kostar það sama þ.e. um 2500kr. ef maður hittir lækni. En síðan safnast það saman uppí afsláttarkort. eins og við aðra læknisþjónustu.

Með bestu kveðjum.
Auður Axelsdóttir iðjuþjálfi Geðhjálp