Ég er haldinn verkkvíða hvað er til ráða?

Spurning:
Ég held að ég sé haldin verkkvíða. Finnst erfitt að byrja á auðveldum verkefnum og hvað þá þeim sem eru krefjandi. Nú er ég í þannig vinnu að ég er í krefjandi verkefnum og þetta kemur virkilega niður á vinnunni. Hugsa á hverju kvöldi að nú skal ég vera dugleg á morgun en svo þegar ég er sest fyrir framan tölvuna þá dríf ég ekki í hlutunum þótt mig langi til þess. Ég hef mjög miklar áhyggjur af þessu og er búin að hafa lengi. Hvað er best að gera í þessu ? Ég hef hvergi fundið ráð við þessu á netinu, þ.e. hvað er best að gera. Væri gott að fara til sálfræðings ? Er til lesefni um þetta ?

Svar:
Því miður fylgir ekki lýsing á þeim verkum sem vaxa þér svona í augum. Eitt ráðið í svona stöðu er að ákveða hvaða verkefni verða leyst daginn eftir en þá er mjög mikilvægt að taka lítil skref. Ætlaðu þér aðeins það sem þú ræður örugglega við (miklu minna en þú vildir í raun gera í byrjun) og stattu svo við það. Til að gera þetta auðveldara er gott að heita sér einhverju ánægjulegu að loknu verki, að verðlauna sig, umbuna. Ef þú hefur skrefin nógu lítil til að byrja með og verðlaunin nógu eftirsóknarverð ættirðu að geta staðið við þetta.
Líkt og í öllu öðru er þó mikilvægt að fylgja þessu plani í einu og öllu, standa við áætlun og alls ekki að veita sér umbun nema að loknum árangri.

Önnurleið er að meina sér um eitthvað ánægjulegt ef tilsettur árangur næst ekki. Grundvallaratriðið er skipulag!
Ef þér tekst þetta ekki á eigin spýtur er gott að hafa stuðning og aðhald sálfræðings.

Gangi þér vel.
Reynir Harðarson
sálfræðingur
S: 563-8565