Ég er með fjörfisk sem hefur aukist – hvað er til ráða?

Spurning:

Sæll.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég sendi fyrirspurn til ykkar. Það sem er að angra mig er að fyrir löngu síðan fór ég að fá „fjörfisk" í vinstra augað svona einstaka sinnum. Það er að segja það voru taugakippir í húðinni undir auganu. Undanfarið hefur þetta aukist til muna og mér finnst ég bara alltaf vera með „fjörfisk" og meira að segja einstaka sinnum kemur það í augnlokið á hinu auganu. Reyndar byrjaði ég í nýrri vinnu fyrir 3 mánuðum, þar sem er töluverð streita.

Er þetta eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af og/eða get ég gert eitthvað sjálfur til að losna við þetta.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Komdu nú sæll.

Það kom nýlega spurning um fjörfisk sem hegðaði sér svipað og þinn nema hvað þessi var búinn að vera í ár! Nú ætla ég ekkert að hræða þig en fjörfiskur er mjög algengur, sérstaklega á svæðinu í kringum augun. Hann er langoftast afar meinlaus og þú losnar að öllum líkindum fljótt við hann. Það er vel þekkt að streita og svefnleysi geta vakið upp fjörfisk og ættir þú því að reyna að slaka svolítið á og taka því rólega – ef þú getur! Einnig er reynandi að setja kaldan þvottapoka á lokuð augun í mínútu eða svo – það gæti stillt vöðvana í kringum augun. Ég myndi ekki hafa áhyggjur af þessu fyrirbrigði. Þú ættir að leita læknis ef þú ferð að fá svo mikinn fjörfisk að augað lokist hreinlega og þú getir ekki opnað það nema með herkjum – og einnig ef þú ferð að fá fjörfisk annars staðar í líkamanum, s.s. í upphandleggsvöðvum, lærvöðvum eða annars staðar.

Gangi þér vel og bestu kveðjur,
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Sjónlag hf.