Eins árs og bítur og öskrar

Spurning:

Sæl og blessuð.

Ég er í vandræðum með dóttur mína sem er að verða 13 mánaða. Hún er voðalega blíð og góð en oft þegar hún fær ekki það sem hún vill, þá öskrar hún og reynir að bíta. Hver er besta aðferðin við að láta hana hana hætta þessu?

Svar:

Komdu sæl og þakka þér fyrirspurnina.

Dóttir þín er ung og það er kannski hluti máls að hún hefur enn ekki tök á því að tjá sig mikið með öðrum hætti þegar henni mislíkar. En það breytir því ekki að þú skalt venja hana af þessum hvimleiða vana og þú verður fljót að því.

Til þess þarft þú að gera það upp við þig hvað þú vilt leyfa henni og hvað ekki. Það ákveður þú, ekki hún. Hvað það er ræðst af skoðunum þínum og gildismati og almennum hugmyndum samfélagsins um hvað er rétt og gott fyrir lítil börn. Ef þú hefur ákveðna sýn í þeim efnum auðveldar það þér að bregðast fyrirvaralítið við því sem hún gerir með því að leyfa henni annað hvort strax það sem hún vill eða fylgja því eftir þótt hún sé ósátt, að hún fái ekki það sem hún sækist eftir. Þetta breytist að sjálfsögðu með aldri hennar og ýmsum aðstæðum og er því eitthvað sem sjálfsagt er að hafa í stöðugri skoðun. En ef þú ert sjálfri þér samkvæm um hvað hún má og hvað ekki, mun hún læra mjög fljótt að greina þarna á milli.

Þegar fólk er óöruggt með hvað eigi að leyfa börnum og hvað ekki, skapast oft vandi sem birtist með þrennum hætti:
1. Það verður erfitt fyrir barnið að læra einhverja reglu og átta sig á til hvers er ætlast af því, þar sem hið sama má stundum og stundum ekki.
2. Barnið hættir að biðja fallega þar sem sú aðferð virkar yfirleitt ekki og styttir sér þess í stað leið beint í óhemjugang sem reynslan hefur kennt því að dugi betur.
3. Barnið lærir að fá vilja sínum framgengt með eins konar valdbeitingu ef svo má að orði komast. Til dæmis með því að öskra og bíta sem er mjög óþægilegt fyrir foreldrana sem reyna að forðast og komast hjá óþægindunum sem hegðun barnsins veldur og gefa strax eftir. Það þýðir að mjög líklega öskri barnið og bíti næst og í framtíðinni þegar það fær ekki vilja sínum framgengt strax. (Á tæknimáli kallast þessi stjórnunaraðferð „neikvæð styrking“).

Þegar svona staða er komin upp verður allt daglegt uppeldi óþarflega þungt í vöfum eins og sjá má í hendi sér. Barnið telst erfitt og aðferðir foreldranna við uppeldið þróast í að rekast stöðugt undan hegðun barnsins og verða eins konar viðbrögð við henni, í stað þess að vera leiðandi og mótandi í því hvernig barnið hagar sér.

Þegar þú hefur lagt niður fyrir þér svona í megindráttum hvað þú vilt leyfa og hvað ekki, er almenna reglan sú að þú þarft að gæta þess að dóttir þín hafi ekki árangur sem erfiði með ótækum athöfnum sínum, þ.e. þegar hún öskrar og bítur. Jafnframt skiptir miklu máli að þú bregðist strax vel við þegar hún hættir að öskra og bíta. Til þessa verks notar þú einhver ákveðin orð og eigið viðmót. Þetta er hægt að gera með ýmsum hætti. Nú veit ég ekki hvað dóttir þín er farin að tala, en þú skalt bara setja markið hátt. Dæmi: Ef hún öskrar og bítur, þá segir þú „hættu þessu“, setur hana strax frá þér og segir síðan hlýlega en ákveðið „ég tek þig upp um leið og þú hættir að öskra“.

Að öllum líkindum mun hún sækja í sig veðrið í fyrstu tvö til þrjú skiptin, öskra hærra og jafnvel sparka. Ef þú heldur það út og fylgir leiðbeiningunum þá hefur þú náð taumhaldinu aftur, og þá mun í framtíðinni jafnvel bara orðin „hættu þessu“ duga.

Athugaðu vel, að þegar þú setur dóttur þína frá þér t.d. á gólfið, þarftu að fylgjast mjög grannt með hegðun hennar án svipbrigða og vera síðan snögg að taka hana í fangið aftur og láta vel að henni um leið og hún hættir að hrína. Ef hún byrjar aftur, þá endurtekur þú orðin „hættu þessu“ setur hana frá þér aftur og segir að þú takir hana aftur um leið og hún hætti, í þessari röð.

Það mun einnig flýta fyrir árangri hjá ykkur ef þú getur haft skrefin smærri og greint breytingar í hegðun hennar með meiri nákvæmni, þ.e. að þú heyrir þegar það sljákkar aðeins í henni og getir þá um leið með andlitstjáningu og hreyfingu sýnt áhuga þinn á að taka hana upp aftur. Til dæmis með því að halla þér aðeins í áttina að henni, rétta hendurnar örlítið fram og segja vongóð og hvetjandi „nú ertu alveg að hætta“.

Það er m.ö.o. mikilvægt að þú hunsir ekki dóttur þína þegar hún hagar sér illa, heldur að þú sýnir samkvæmni í að bregðast ekki vel við einstökum ótækum athöfnum í fari hennar og sért jafnframt alltaf tilbúin að breg&
eth;ast vel við þegar hún haga sér vel eða gerir eitthvað sem er í rétta átt að þínu mati.

Þegar þú tekur hana í fangið beindu þá með eigin orðum og athöfnum athygli hennar að einhverju öðru en því sem þið eruð að glíma við og eruð ósammála um, að einhverju sem er skemmtilegt og þú vilt sjá meira af.

Gangi þér vel með þetta.
Guðríður Adda Ragnarsdóttir atferlisfræðingur.