Eitlastækkanir á hálsi?

Spurning:
Ég varð var við einn bólginn eitil hægra megin á hálsi í ágúst/september 2005. Eftir margra vikna viðveru var hann þarna enn og fór í taugarnar á mér. Þá tók ég til minna ráða og fór til læknis sem nánast sannfærði mig að þetta væri eflaust ekki neitt. Hann bauð mér samt að fara í blóðprufu til þess að vera með allt pottþétt. Í blóðprufunni kom ekkert óeðlilegt kom í ljós. Engu að síður er umræddur eitill enn sjáanlegur og eins og ég sagði heimilislækninum þá finn ég smá eymsli frá þessu svæði annað slagið en þó ekki oft. Læknirinn upplýsti mig um hlutverk eitlakerfisins og að bólgnir eitlar gætu verið afskaplega lengi að ná sér á strik aftur. Þar sem ansi margir mánuðir hafa liðið þá datt mér í hug að fá ykkar álit. Á sínum tíma þá málaði ég skrattann á vegginn og hélt að um eitilfrumukrabbamein væri að ræða. Þar sem blóðprufan sýndi ekkert á ég þá að hafa áhyggjur? En hvað með þessi fátíðu eymsli sem ég finn fyrir? Hafa ber einnig í huga að það er engin dreifing þ.e. aðeins er um þennan eina bólgna eitil að ræða. Hvað á ég að gera? Ekkert? Röntgen? Eitilsýni?  Allsherjar læknisskoðun kannski á nýju ári, þá hvar?

Svar:
Eitlastækkanir á hálsi eru algengar og tengjast oftast efri loftvegasýkingum eins og hálsbólgu eða t.d tannsýkingum og geta eitlar verið stækkaðir í nokkrar vikur í kjölfar slíkrar sýkingar. Ef eitlastækkun er viðvarandi og engin undirliggjandi sýking finnst mér rétt að fá eitlasýni. Ræddu þetta við heimilislækninn þinn.

Kveðja,
Einar Eyjólfsson, heimilislæknir