Ekkert kjöt í 2 ár, er það í lagi?

Spurning:

Kæri matvæla- og næringafræðingur!

Ég er 22 ára og hef ekki borðað neitt kjöt nema kjúklingakjöt í rúm 2 ár. Ég hef ekkert látið athuga hvort mig vanti einhver vítamín eða annað. Það er alltaf verið að segja við mig að ég verði að taka inn járn og annað sem ég fæ ekki úr kjötinu. Ég borða mikið af grænmeti og kjúklingakjöt nánast í hverri viku, einnig borða ég mikinn fisk. Ég tek eina matskeið af aloe-vera djús (Volare) á morgnana. Er þetta eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af? Ef svo er, hvað mælir þú þá með að ég geri?

Kærar þakkir,
Kjúklingurinn.

Svar:

Kæri ,,Kjúklingur"

Þó svo að þú borðir ekki annað kjöt heldur en kjúkling, þarft þú ekki að hafa áhyggjur af því að skorta neitt úr fæðinu ef þú vandar þig. Kjöt er reyndar besti járngjafinn en járn færð þú einnig úr fiski og eggjum, svo ogýmsum kornmat og járnbættu morgunkorni. Nýting járns úr kornmat bætist til muna ef við höfum eftirfarandi þætti í huga: C-vítamín (t.d. úr appelsínum eða appelsínusafa) í sömu máltíð eykur upptöku á járni í þörmunum. Svokallaður ,,meat-factor" gerir slíkt hið sama (smávegis af kjöti með brauðmáltíð getur skipt miklu máli). Kalk hindrar frásog á járni – drekkum því ekki mjólk með þeirri máltíð sem gefur okkur mest járn. Te og kaffi hindra frásog á járni – drekkum því te og kaffi milli mála en ekki eftir máltíð. Meðan þú sleppir ekki alveg fiski, eggjum og mjólkurmat úr fæðinu og ert dugleg að borða ávexti, grænmeti og brauð þá ættir þú ekki að vera í neinnihættu. Notaðu t.d. fæðuhringinn (sjá heimasíðu manneldisráðs) tilviðmiðunar.

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir,
matvæla- og næringafræðingur