Endurtekin vefja- og slitgigtarköst?

Spurning:
Heil og sæl ég er með spurningar til ykkar.
Ég hef verið greind með vefjagigt og slitgigt og hefur þetta verið að herja á mig í tæp 15 ár og í dag er ég 47 ára. Ég er alltaf hjá gigtarlækni sem þykir mjög fær og er ég að taka lyfin Relifex og Neurontin sem á að hjálpa mér til að ná dýpri svefni, einnig tek ég inn Seroxat og stundum svefnpillur þegar ég er í slæmum köstum. Er búin að fara í aðgerðir á báðum öxlum og er búin að vera í sjúkraþjálfun alltaf tvisvar til þrisvar í viku undanfarin ár. En nú er ég allveg orðin úrræðalaus og finnst ég ekkert geta gert lengur sem ég hef haft gaman af t.d prjóna, sauma og jafnvel á erfitt með að keyra bílinn. Ef mér verður á að gera eitthvað af þessu, finnst ég vera fær í flestan sjó en leggst svo bara í rúmið á eftir alveg handónýt og geta þessi köst varið allt í þrjá til fjóra daga, ég er að fá þriðja svona kastið á stuttum tíma, það er eins og þúsund tonn liggi á skrokknum á mér. Spurningin er: eru engar sprautur komnar við þessu og er þetta eðlilegt að það styttist svona á milli kasta?  Ég er einnig með slitgigt í hálsliðum, var með útbunganir en þær hafa gengið til baka en er með slitgigt í 5., 6. og 7. hálslið og einnig kalk á milli. Var að heyra að í Bandaríkjum væri farið að taka DNA-prufur til að greina og finna réttu lyfin, er þetta ekki gert hérna? Jæja ætla að láta þessu lokið í bili.
 Ein sem sér ekkert jákvætt vegna verkja. Kveðja xxxxx

Svar:
Þú ert greinilega að gera ýmislegt til að bæta þína líðan s.s. með því að taka á svefnvandamálum sem er mjög mikilvægt og stunda sjúkraþjálfun sem væntanlega tekur á verkjavandamálum, æfingum, slökun, líkamsbeitingu o.fl. En það kemur ekki fram hvort þú er að taka á öðrum þáttum s.s. er mikil streita til staðar, hvernig eru vinnuaðstæður og vinnuhagræðing eða hvaða fræðslu þú hefur fengið á þessum árum.  Gigtarfélags Íslands heldur reglulega fræðslunámskeið fyrir fólk með vefjagigt. Markmið námskeiðsins er að miðla aukinni þekkingu til þátttakenda um sjúkdóm sinn, afleiðingar hans og hvað þeir geti sjálfir gert til að stuðla að betri líðan.
Innan Gigtarfélagsins er einnig starfandi áhugahópur um vefjagigt og síþreytu þar sem hægt er að fá upplýsingar og leita stuðnings hjá öðrum með vefjagigt.  Sprautur eru ekki mikið notaðar við vefjagigtinni en oftar við slitgigtinni bæði í liði og festumein. Hér er okkur vitanlega ekki notaðar DNA-prufur til að finna réttu lyfin.

Starfsfólk Gigtarlínu

www.gigt.is

Gigtarfélag Íslands