Endurteknar lithimnubólgur?

Spurning:
Góðan dag og takk fyrir fróðlegan og góðan vef.
Frá unglingsaldri hef ég annað veifið fengið endurteknar lithimnubólgur í annað augað, seinna í bæði augu og í framhaldi af því bjúg í augnbotna fyrir fjórum mánuðum síðan. Ég hef fengið prednisólon til inntöku og methetrex, auk optimol augndropa. Hægra augað er að jafna sig en vinstra augað er ennþá slæmt. Að viku liðinni stendur til að ég fái sterasprautu inn fyrir augað og talaði augnlæknirinn minn um aukaverkanir af henni, sem kæmu fram á augnloki, að mér skildist. Mig langar til að vita meira um þetta og eins almennt um bjúg í augnbotnum.
Kveðja og fyrirfram þökk

Svar:
Komdu nú sæl.E.t.v. ert þú þegar búin að fá steragjöf undir slímhimnu eða á bak við augað. Lithimnubólga, eða uveitis, eins og hún kallast á latínu, er bólga í miðjulögum augans. Þessi lög eru t.d. lithimnan (iris) og æðahimna (choroid), auk svokallaðs brárkleggja (ciliary body), þar sem augnvökvi augans er framleiddur. Þessi bólga kemur oftar upp framarlega í auganu, þar sem lithimnan er heldur en aftar í æðahimnu. Kallast bólgan þá fremri lithimnubólga og lætur yfirleitt undan steradropum. Ef hún kemur upp aftarlega í auganu (posterior uveitis), er ekki víst að það nægi að gefa dropa, vegna þess að virkni þeirra er mest þar sem þeir eru látnir drjúpa, þ.e. framantil. Þess vegna þarf stundum að gefa steralyf aftar og á bak við augað til að verka á bólguna.Um uppruna bólgunnar er það að segja að í 50% tilvika er ekkert vitað hvað veldur. Í hinum helmingnum skiptast á veirur, bandvefs- og gigtarsjúkdómar, auk nokkurra annarra sjaldgæfari orsaka. Þegar einstaklingur hefur fengið tvö eða fleiri köst eru teknar blóðprufur til að athuga hvort hægt sé að finna orsökina. Ef hún finnst ekki er lítið hægt að gera nema að meðhöndla kast eins fljótt og hægt er til að hindra sjónskerðingu af völdum bólgunnar. Gangur þessa sjúkdóms er óútreiknanlegur. Stundum hætta köstin og koma ekki aftur – auk þess sem köstunum fækkar oft með aldri.Bjúgur í augnloki getur komið sem afleiðing lithimnubólgu. Bjúgur er jú oft fylgifiskur bólgu. Einnig getur lyfjainndæling í kringum auga orsakað bjúg í augnloki, en hann hverfur langoftast með tímanum. Í einstaka tilvikum getur augnlok sigið lítið eitt í kjölfar lyfjagjafar, en það lagast yfirleitt af sjálfu sér með tímanum.Sterar eru bólgueyðandi lyf, sem geta hækkað augnþrýsting. Það er sennilega ástæða þess að þú ert að taka augnþrýstingslækkandi dropa, eða glákudropa, með lyfjunum. Einnig eru til steradropar sem lækka augnþrýsting síður, eins og Flucondropar, sem fást gegn undanþágu hér á landi.Ég ráðlegg þér eindregið að nýta þér öll sóknarfærin gegn lithimnubólgunni með augnlækni þínum. Ómeðhöndluð lithimnubólga getur valdið mikilli sjónskerðingu, sem því miður er óafturkræf. Steralyfin eru ekki án aukaverkana en reynast sannur vinur í raun í tilvikum sem þessum.
Gangi þér allt í haginn! Bestu kveðjur,Jóhannes Kári.