Er Diet fuel skaðlaust?

Spurning:
Ég sá fyrirspurn um Ripped fuel á vefnum og smá umræðu í kringum það. Nú hefur efni sem heitir Diet fuel frá sama framleiðanda verið leyft á Íslandi og mér leikur forvitni á að vita hvort að þetta efni sé með öllu skaðlaust. Hver er virkni þess og getur langvarandi notkun verið hættuleg?

Svar:
Hvað varðar fyrirspurnina um diet fuel, þá er hér um afurð að ræða sem inniheldur efni á borð við koffein og karnítín. En koffein er örvandi efni og mikil neysla þess getur svo sannarlega leitt til neikvæðra aukaverkana eins og öran hjartslátt og magaslæmsku. Það er og staðreynd að efnið karnítín er vita gagnslaust í baráttunni gegn aukakílóunum. En framleiðendur svokallaðra ,,fæðubótarefna" sem innihalda karnítín fullyrða gjarnan, og þá ranglega, að neysla karnítíns í fæðubótarformi hafi jákvæð áhrif á fitubruna og vöðvauppbyggingu. Þess má geta að viðvarnir á umbúðum diet fuels eru í þá veru að ekki sé mælt með að börn og ófrískar konur neyti efnisins. Þess má geta að lyfjaeftirlitið hefur leyft diet fuel í sölu hér á landi vegna þess að ef fullorðið ,,heilbrigt" fólk neytir efnisins, í því magni sem mælt er með, er ólíklegt að það beri skaða af. Aftur á móti er ekkert sem sannar að efnið sé áhrifaríkt í baráttunni gegn aukakílóunum eins og framleiðendur staðhæfa.

Kveðja,
Ólafur Sæmundsson, næringarfræðingur