Er dóttir mín með athyglisbrest?

Spurning:

Komdu sæl Guðríður Adda!

Ég á tæplega sjö ára dóttur sem ég hef dálitlar áhyggjur af.

Hún er vel greind og dugleg stelpa en það eru nokkur atriði í hennar fari sem trufla mig. Fyrir það fyrsta á hún erfitt með að einbeita sér í hóp. Það er allt í lagi þegar hún er ein, en í skólanum er hún alltaf sein að koma sér að verki, og við aðrar aðstæður þar sem hún þarf að hlíta fyrirmælum í stórum hópi, er stundum eins og hún hvorki heyri né sjái.

Á hinn bóginn er hún líka mjög frek á athygli frá þeim sem eru í kringum hana. Mér finnst stundum líka að hún sé ekki í alveg nógu góðu jafnvægi. Hún skælir og/eða rýkur í fýlu af minnsta tilefni og er í rauninni oft mjög uppstökk og neikvæð. Mér finnst alltof mikið af okkar samverustundum fara í eitthvert karp eða grenjustand út af smæstu tilefnum. Kvöldmatartíminn er oft algjör martröð því hún er mjög matvönd og þegar hún borðar er hún svo lengi að því.
Þá hef ég líka áhyggjur af því að hún er stöðugt að passa að ekki sé gengið á hennar hlut og er nísk á það sem hún á. Þetta hefur aukist með árunum. Þegar hún leikur sér við aðra krakka er hún stjórnsöm og túlkar leikreglur af mikilli smámunasemi, svo jaðrar við að leikurinn sé ekki lengur skemmtilegur þegar hún er við stjórn.

Þess ber að geta að hún á fjögurra ára systur sem hún elskar út af lífinu, en er alltaf að passa að hún fái nú örugglega ekki meira af neinu en hún sjálf. Ég er kannski að gera úlfalda úr mýflugu en mér finnst þessi hegðun fara versnandi sem er leiðinlegt því að í rauninni er hún mjög glaðlynt og opið barn sem veit ekkert skemmtilegra en að fara á nýja staði og kynnast nýju fólki, sem sagt algjört fiðrildi. Hún er líka mjög blíð og kelin og afskaplega viðkvæm, má ekkert aumt sjá.

Ég hef verið að reyna að skoða okkar mynstur til að sjá hvort við hjónin séum að gera eitthvað vitlaust í uppeldinu. Hún fær nægan svefn og hollan mat.

Hún fær ekki allt sem hún vill þótt hún reyni stíft og eigi erfitt með að gefa eftir. Hún fær líka næga ástúð og umhyggju, bæði frá okkur foreldrunum og yngri systur sinni sem dýrkar hana. Ég tel að við séum mjög passasöm með að gera ekki upp á milli stelpnanna.

Það er einna helst að mér detti í hug að við höfum gert of miklar kröfur til hennar en hún er mjög sjálfsörugg, félagslynd og sjálfstæð svo auðvelt er að falla í þá gryfju að ætla henni of mikið. Þá er ég að meina varðandi það að bera ábyrgð á skóladótinu og flíkunum sínum, sýna af sér fyrirmyndarhegðun við öll tækifæri, sýna þroska í samskiptum, stundum umfram vinkonur hennar, og eins höfum við dottið mikið í að skamma hana fyrir að vera alltaf á hausnum, en það finnst okkur oft mega skrifast á það að henni liggur svo óskaplega lífið á að hún svona brussast um og er alltaf að meiða sig. Þá hefur mér stundum dottið í hug að hún eigi við vægan athyglisbrest að stríða og þurfi skýrari reglur og aðhald en kannski gengur og gerist með börn.

Er þetta eðlileg hegðun hjá barni á þessum aldri eða getur þú gefið mér góð ráð til að takast á við þetta?

Með kveðju, áhyggjufull móðir.

Svar:

Komdu sæl og þakka þér fyrirspurnina.

Ef ég tek saman lýsinguna í fyrirspurninni frá þér, þá sýnist mér að þú viljir kenna dóttur þinni að:

1. vinna og leika sér með öðrum
2. taka tillit til þarfa annarra
3. hafa reiður á dótinu sínu
4. einbeita sér að verki
5. stjórna skapi sínu
6. borða þann mat sem henni er boðinn og
7. fara varlega.

1. Að vinna og leika sér með öðrum

Segja má að samvinna sé hluti af skólafærni og daglegri lífsleikni barna og fullorðinna. Svona almennt séð, þá getum við gengið út frá því að allt sem við viljum sjá í fari barnanna okkar þurfi að kenna þeim með einhverjum hætti. Sumt læra þau sjálfkrafa” og annað þarf að kenna sérstaklega.

Börn eru misvön að vinna í hópi að sameinginlegu verkefni, og ef til vill verður stöðugt mikilvægara að kenna það nú þegar fólk kemur æ sjaldnar úr stórum hópi systkina. Þótt stelpan þín sé bara tæplega sjö ára, þá er ekki eftir neinu að bíða. Samvinnu má kenna eins og flest annað með ýmsum leikjum. Ef friðsæl og gagnleg samvinna er meginmarkmiðið, er mikilvægt að leggja niður fyrir sér hvað það er sem maður telur að felist í því að vinna vel í hópi. Hvað gerir maður þá sem félagi í hópnum? Til dæmis að hlusta á hina, að gefa merki þegar maður óskar eftir því að fá orðið, að bíða með að tala þar til sá sem hefur orðið hefur lokið máli sínu og ýmislegt fleira. Prófaðu að skrifa niður það sem þú telur að börn þurfi að gera til að leikurinn og hópvinnan gangi vel. Hafðu eitt atriðið í hverri línu, raðaðu þeim upp eins og þér finnst rökréttast með því einfaldasta fyrst og númeraðu atriðin. Að öllum líkindum ertu n
ú komin með lista sem mynda áfangana að lokamarkinu. Taktu einn áfanga fyrir í einu og æfðu dóttur þína í því sem þú hefur tilgreint þar. Það gerir þú með því að hrósa henni um leið og hún gerir rétt. Jafnvel fjórum sinnum á mínútu til að byrja með! Nýja siði lærir hún með æfingunni og tímanum svo fremi sem það að gera rétt” felur í sér einhvern umsvifalausan ávinning fyrir hana. Á þessu stigi máls felst ávinningurinn í hrósinu frá þér. Best er að hafa æfingatímana mjög stutta, jafnvel bara 5 mínútur til að byrja með, helst á hverjum degi. Láttu hana vita fyrirfram hversu langan tíma þið takið og ekki lengja hann þótt hún vilji það. Vertu fyrst með henni ein, og bættu svo einhverjum einum félaga hennar við, og síðan enn öðrum. Einn áfanginn getur t.d. falið í sér að stelpan þín eigi að spyrja félagann: Hvað finnst þér um…, eða hvað vilt þú?” Og þú bregst við um leið með því að brosa og segja t.d. já, flott hjá þér”.

Hafðu sama fyrirkomulagið í öllum áföngunum, og leyfðu henni að njóta árangurs í hverjum áfanga nokkrum sinnum þar til þér sýnist að henni sé nýja aðferðin orðin nokkuð töm, áður en þú bætir við nýjum áfanga með viðbótarkröfum.

Svo hvet ég þig eindregið til að hafa samband við kennara dóttur þinnar. Athugaðu hvort hún/hann er ekki til í að taka fyrir í bekknum hjá sér þema sem t.d. héti: Að (vinna og) leika sér saman. Það getur verið með sama meginfyrirkomulagi og lýst er hér að ofan. Slíkt er eiginlega sjálfsagt viðfangsefni alla skólagönguna, þótt efnið breytist eftir því sem börnin eldast og þeim vex fiskur um hrygg í hópstarfinu.

Við þetta má bæta að í skólanum er að öllum líkindum til bók eftir undirritaða sem heitir Gríptu til góðra ráða. Vísir að handbók í atferlisstjórnun handa foreldrum, kennurum og ráðgjöfum í skólaþjónustu”. Ef kennarinn og þú flettið bókinni saman, finnið þið örugglega sitt lítið af hverju til að styðjast nánar við.

2. Að taka tillit til þarfa annarra

Kennsluaðferðin hér er sú sama og greint er frá að ofan.

Settu meginmarkmið um það sem þú vilt sjá í fari dóttur þinnar, raðaðu þrepunum sem þangað liggja eftir þyngdarröð og kenndu henni eitt og eitt í senn með því að gefa stutt, skýr og einföld fyrirmæli um það sem hún á að gera. Síðan beitir þú kennslutækinu sem er að bregðast vel við um leið og hún sýnir lit.

Þú segir hana kelna, og þar varstu heppin. Það gefur þér möguleika á meiri fjölbreytni í viðbrögðum þínum. Auk þess að orða þau, þá geta þau falist í brosi, uppörvandi og glettnu augnaráði, léttu klappi og síðast en ekki síst kossum og knúsi.

Nú veit ég að vísu ekki hvernig vinnutíma ykkar foreldranna er háttað eða hversu aðgangshörð hún er. En prófaðu að skrifa niður í grófum dráttum hvernig venjulegur dagur gengur fyrir sig, svona eins og stundatöflu eða skífu með tímasetningu sem þú hengir á ísskápinn. Reyndu að setja þar inn t.d. fjórar til sex stuttar lotur sem dreifast yfir daginn og þú og pabbi hennar, ýmist saman eða hvort í sínu lagi, taka sérstaklega frá fyrir hana þar sem hún fær óskipta athygli og ræður” hvað þið gerið þá stundina. Merktu loturnar með sérstökum lit og kynntu fyrirkomulagið vel fyrir dóttur þinni með því að tala jákvætt um það. Inn á þessa stundatöflu merkir þú líka með öðrum lit, – það er prívat liturinn þinn. Nú er svo sem óvíst að þú fáir frið í alvöru þær stundir sem þú hefur merkt þér, en aðalatriðið er að æfa hana í að virða þær. Undirbúðu þetta vel með því að velja þá tíma fyrir þig sem líklegast er að dóttir þín dundi sér við annað, e.t.v. þarftu að vera búin að koma henni vel af stað í annað verk. Einnig er gott að velja tíma fyrir sig sem eru tengdir öðrum reglum, s.s. háttatíma. Það þýðir að hún á að fara að sofa á ákveðnum tíma og að það er ekki til umræðu að hún bíði eftir því að þið farið í rúmið. Taktu ekki þátt í að þrasa við hana. Ef hún segist ekki muna hvernig þetta er, leiddu hana þá geðshræringarlaust að ísskápnum, bentu henni á blaðið og ítrekaðu regluna. Snúðu þér síðan að einhverju öðru.

3. og 4. Að einbeita sér að verki og hafa reiður á dótinu sínu

Kennsluaðferðin er sú sama og fyrr, reyndu að leggja niður fyrir sjálfri þér hvað þú vilt sjá í fari dóttur þinnar, taktu fyrir afmörkuð atriði, eitt í senn, sem mynda þá heild sem þú sérð sem meginmarkmið í þessu samhengi. Kennslutækið er það sama og áður:

Að bregðst STRAX við á JÁKVÆÐAN hátt og ÖRUGGLEGA á meðan verið að að venja hana á nýja siði. Til dæmis að hafa glærar mislitar möppur undir laus blöð, taka upp úr skólatöskunni á hverjum degi og setja aðeins það í hana aftur sem nota á næsta dag. Hvað þetta varðar skaltu endilega reyna
að fá kennarann í lið með þér, þannig að þið stillið ykkur saman og verðið samstíga við að styðja dóttur þína til að hafa betra skipulag í kringum sig. Kannski er kennarinn til í að taka það fyrir sem einn þátt í að kenna skólafærni?

Verið getur að dóttir þín haldi samt áfram að vera svolítið gleymin – sumir verða alltaf svolítið gleymnari en aðrir. Margir koma sér upp góðum aðferðum til að minna sig á, og hún mun örugglega gera það líka ef þið hjálpið henni af stað.

Hvað varðar leiðir til að auka einbeitni hennar, má t.d. benda á tvennt sem gefst vel. Annað er að hafa mjög stuttar vinnulotur með hléi á milli, og hrósa henni þegar lotunni lýkur. Hitt er að gefa henni tiltölulega rúman tíma til að koma sér í gang og hrósa henni vel. Mörgum krökkum finnst gaman að hafa klukku til að keppa við og sjá sjálf hvað tíminn styttist sem þau þurfa.

Það er miklu gagnlegra og skemmtilegra að búa til léttan leik í þessu samhengi, heldur en að standa og reka á eftir henni.

5. Að stjórna skapi sínu Börn sem líkjast því sem þú lýsir dóttur þinni, eru oft meir og mjög viðkvæm í lund, þótt þau séu jafnframt skemmtileg og dugleg. Í megindráttum ráðlegg ég þér að fara eins að í þessu sambandi eins og reifað hefur verið hér að ofan.

Ef hún fer í fýlu, láttu hana þá ekki ná þér í þras og endalausar rökræður. Gættu þess einnig að hún stýri ekki heimilishaldinu með fýluköstum eða að þið breytið áætlunum ykkar vegna þeirra. Viðkvæmir einstaklingar þurfa hins vegar stundum að jafna sig smá stund. Sumir krakkar finna þegar það er að koma” og fyrirverða sig og þá er gott ef þau hafa afdrep á meðan vanlíðanin er að ganga yfir. Sum lýsa þessu þannig að þau vilji ekki að kastið” komi, en að þau ráði ekki við það. Gefðu henni möguleika á því að eiga sér griðastað og taktu henni fagnandi þegar hún kemur, án þess að vísa í kastið”.

Ef hún á hinn bóginn beygir af, vertu þá góð við hana, taktu hana í fangið og láttu hana finna ró og hlýju. Oftast dugir það. Spjallaðu síðan við hana í léttum, uppörvandi tón um eitthvað skemmtilegt og reyndu að fá hana til að dreifa huganum. Vilji hún fara á griðastaðinn sinn, leyfðu henni það en miðaðu við að hún dvelji þar ekki mikið lengur en u.þ.b. 20 til 30 mínútur og komi þá fram og taki þátt í daglegu lífi.

Þú nefnir áhyggjur þínar yfir því að þið gerið e.t.v. of miklar kröfur til hennar.

Ef hún hefur góða tilfinningu fyrir því sjálf hvað hún ræður við og getur, er ástæðulaust að vera að halda eitthvað aftur af henni, treysti hún sér til hlutanna.

Reyndu að láta kröfurnar til hennar bara haldast í hendur við þetta.

6. og 7. Að borða á matartímanum það sem sett er á borð og að fara varlega

Það er öllum börnum gott að búa við skýrar reglur, það léttir líka heimilishaldið fyrir þá fullorðnu.

Matartímarnir sem eiga að vera góðu stundirnar, eru oft miklir álagstímar. Í ofangreindri bók Gríptu til góðra ráða”, er í 4. kafla fjallað sérstaklega um mál sem tengjast borðhaldi, matvendni og venjum sem lúta að daglegu lífi á heimili. Svar við þessu atriði yrði of viðamikið hér, og ráðlegg ég þér eindregið að skoða þetta efni í bókinni.

Sumir krakkar, og dóttir þín er líklegast einn þeirra, virðast meiða sig oftar en önnur börn. Reyndu að láta það ekki fara í taugarnar á þér, það er mjög ólíklegt að dóttir þín sækist sérstaklega eftir því að reka sig utan í eða detta. Þetta þýðir hins vegar að þið þurfið að hafa auga með henni, og líka þeir sem gæta hennar fyrir ykkur þegar hún fer í pössun. Hluti af því að kenna henni að gæta sín er að spjalla við hana um hvað og hvar það er sem hún þurfi að passa sig á. Getur hún t.d. talið það upp?

Að lokum:

Ódýrasta, einfaldasta og áhrifaríkasta aðferðin til að kenna dóttur þinni það sem þú vilt sjá í fari hennar er að hrósa henni með orðum og atlotum stöðugt og jafnóðum fyrir það sem hún gerir rétt, og/eða er í rétta átt. Reyndu að haga aðstæðum þannig að mörg tækifæri skapist til þess.

Gangi þér vel með það.

Guðríður Adda Ragnarsdóttir, atferlisfræðingur