Er ég í nógu góðu formi samkvæmt einhverjum skala?

Spurning:

Sæl.

Ég að velta fyrir mér hvort ég er í nógu góðu formi samkvæmt einhverjum skala sem þið eigið.

Ég er 165 cm og 65 kíló.
Ég er 19 ára.
BMI jafnvægið er 24.
epla/perutala er 0,87.

Ég fer á líkamsræktarstöð að minnsta kosti 3 x í viku í body pump og spinning og æfi íþrótt 2 x í viku.

Ég er þjálfari og vil líta sem best út til að vera góð fyrirmynd.

Með fyrirfram þökkum.

Ein sem hugsar um álit annarra.

Svar:

Sæl.

Samkvæmt viðmiðunarmörkum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, er vannæring, kjörþyngd, ofþyngd og offita fyrir fullorðna skilgreind á eftirfarandi hátt:

Vannæring: BMI minna en 18.5
Kjörþyngd: BMI á bilinu 18.5-24.9
Ofþyngd: BMI á bilinu 25.0-29.9
Offita: BMI stærra en eða jafnt og 30

Rétt er að benda á að stuðullinn tekur ekki tillit til mismunandi líkamsbyggingar fólks. Hann greinir t.d. ekki á milli þyngdar vöðva og fitu þannig að vöðvamikill og grannur einstaklingur getur lent í ofþyngdarhópnum.

Það er frábært að þú hugsir vel um heilsuna og reynir að vera góð fyrimynd. Haltu því áfram. Á meðan þú hreyfir þig reglulega og borðar hollt og fjölbreytt fæði og forðast að mestu sætindi og fituríka fæðu, ertu að hugsa vel um líkamann og það skilar sér í hæfilegri líkamsþyngd og hraustlegu útliti.

kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari