Er fimmta veikin hættuleg?

Spurning:

Sæl Dagný.

Mikið hefur verið talað um svokallaða fimmtu veikina undanfarna daga. Er það rétt að hún geti verið hættulega ófrískum konum? Ef svo er, hvernig lýsir það sér og hvað er til ráða?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Það er rétt að „fimmta veikin“ svokallaða er að ganga í skólum og leikskólum um þessar mundir. Hún leggst nú aðallega á börn en ef kona smitast á meðgöngu getur veiran sem veikinni veldur borist yfir til fóstursins og valdið því skaða. Það er þó fremur lítil hætta á því en vissara að vera á varðbergi fyrir einkennum smits. Hjá börnum lýsir veikin sér með hita og stórum útbrotum, sérstaklega á andlitinu. Hjá fullorðnum eru einkennin yfirleitt vægari og koma aðallega fram sem hiti og liðverkir en ekki endilega útbrot. Ef barnshafandi konu grunar að hún sé smituð ætti hún tafarlaust að ræða við ljósmóður og lækni í mæðravernd og þá sjá þau um að staðfesta hvort um „fimmtu veikina“ er að ræða og gera viðeigandi ráðstafanir til að fylgjast með fóstrinu og líðan þess.

Vonandi nægja þessar upplýsingar en ef frekari fræðslu er þörf er rétt að benda á ljósmæður og lækna í mæðravernd.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir