Er grænt te óæskilegt á meðgöngu?

Spurning:
Í tímaritinu ,,Vikunni", tölublaði sem fjallaði um eggjagjöf og fleira tengt meðgöngu, var fjallað um að grænt te væri mjög skaðlegt á meðgöngu og væri þess neytt í kringum getnað eða á meðgöngu væri t.d. hætta á því að það vantaði hluta heilans í fóstrið. Mér brá dálítið við að lesa þetta þar sem ég er sjálf ólétt og hef ekki lesið neitt slíkt áður. Er eitthvað til í þessu?

Svar:
Sæl og takk fyrir fyrispurnina.
Ég hef ekki lesið þessa grein sem þú talar um og þekki því ekki til innihalds hennar eða heimilda höfundar. Vitað er að grænt te er talið hollt að mörgu leyti, bætir m.a. fituefnaskipti, talið lækka kólesteról og að það dragi úr líkum á krabbameini. Grænt te er unnið úr sama efniviði og önnur te en er ekki brennt. Eflaust á eftir að rannsaka grænt te betur með tilliti til meðgöngu, það hefur verið talið meinlaust og jafnvel betri kostur en kaffi og svart te. Samt sem áður er alltaf ráðlegt að fara varlega þegar ekki er næg þekking til staðar og láta barnið njóta vafans. 
Bestu kveðjur og gangi þér vel.
Halldóra Karlsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir