Er hægt að fá vöðvabólgu í auga?

Spurning:
Mig langar til að forvitnast um það hvort hægt sé að fá vöðvabólgu í vöðva sem stjórna hreyfingum augans. Þannig er mál með vexti að fyrir einum fjórum árum, og síðan á viku til þriggja vikna fresti, fór ég að fá óþægindi í augun sem lýstu sér líkast rafsuðublindu sem sé fékk eitt sinn í æsku.

Mjög óþægilegt eða jafnvel sárt er að hreyfa augun og þau verða rauðleit en ekki virðist samt sem neinn þurrkur sé í gangi. Mér finnst ég frekar skynja að um auma vöðva einhvurs staðar inn á milli sé að ræða en hef þó ekki getað sett fingur á neinn ákveðinn stað. Þetta gengur yfir á tveim til fjórum dögum en er verulega truflandi meðan á því stendur. Ég hef farið til augnlæknis sem skoðaði augað og augnbotninn en fann ekkert athugavert og taldi að um þurrk væri að ræða og benti mér á gervitár sem hjálpuðu ekkert. Auðvitað hef ég líka kvartað við heimilislækninn en ekkert komið út úr því.

Nú er það þannig að ég er með frekar stór augu og annað er dálítið útistandandi sem má rekja til ofvirkni skjaldkirtils. Fyrir fjórtán árum fékk ég svo geislavirkt joð þannig að ég hef nokkuð góður síðan hvað það varðar en augað er jafn útstandandi og áður. Ég er talsvert í íþróttum en fæ þó stundum vondan hálsríg sem ég losna ekki við nema í reglulegu nuddi hjá nuddara.

Svar:
Þú gefur afar góða lýsingu af ástandi þínu. Ég tel af þeirri lýsingu ekki líklegt að þú sért með bólgur í augnvöðvum. Augnvöðvar eru allnokkuð öðruvísi uppbyggðir en t.d. hálsvöðvar og fær maður því ekki vöðvabólgur í augnvöðva í venjulegum skilningi þess orðs. Það er þó ekki svo að bólga geti ekki komið í þessa vöðva, en það er þó einkum í vissum veirusýkingum og einstaka sinnum hjá fólki með skjaldkirtilsbrenglanir. Þú hefur slíka sögu að baki en mér þykir þó fremur ólíklegt að slíkt sé að henda þig svo mörgum árum eftir meðferð á skjaldkirtlinum. Rafsuðublinda kemur vegna þess að bólga kemur í ystu lög hornhimnunnar, sem er glæri glugginn framan á auganu. Slík bólga veldur óþægindum og miklum sársauka sem þú eflaust þekkir. Slík bólga getur komið vegna annarra hluta, s.s. þurrks í augum, hvarmabólgu, sýkinga o.fl.

Af lýsingum þínum að tel ég að um yfirborðsvandamál af því tagi sé að ræða. Ég myndi eindregið ráðleggja þér að sækja ráð hjá öðrum augnlækni – betur sjá augnlæknar en augnlæknir, ekki satt?

Bestu kveðjur – gangi þér allt í haginn.

Jóhannes Kári.