Er hægt að komast í ristilspeglun frítt?

Spurning:
Mig langar að senda fyrirspurn varðandi ristilspeglun. Ég fór í stutta speglun fyrir nokkru þar sem einn sepi fannst. Hafði verið með blóð í hægðum á undan. Er að fara í fulla speglun fljótlega þar sem fjarlægja á sepann og skoða allan ristilinn í leit að fleirum. Þessar rannskóknir eru gerðar á stofu útí bæ og kosta mig um 20.000 kr. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég þarf á einhverskonar læknisþjónustu að halda (fyrir utan fæðingardeildina) og því finnst mér hálffúlt að borga þetta fullu verði, verandi búin að borga mína skatta og skyldur í mörg ár. Veit að þessar rannskóknir eru einnig gerðar inni á sjúkrastofnunum, þá væntanlega sjúklingum að kostnaðarlausu. Get ég á einhvern hátt komist í þá aðstöðu? Aðrar spurningar varðandi ristilinn: eru meiri líkur á svona sepamyndun í framtíðinni og þarf ég þá að vera í reglubundu eftirliti? Fannst læknirinn minn ekki nógu sannfærandi um að blæðingin stafaði frá sepanum, blæðir yfirleitt ekki frá þeim eða hvað?

Svar:

Ristilsspeglanir eru framkvæmdar bæði á stofum og á sjúkrastofnunum og er kostnaður fyrir sjúklinga fyrir þær hinn sami, nema ef sjúklingur sé inniliggjandi á sjúkrastofnun, oft vegna ýmissa annarra vandamála. Í einstaka tilvikum eru sjúklingar lagðir inn gagngert til ristilspeglunar og er yfirleitt um að ræða mjög fullorðna eða veika einstaklinga sem ekki geta undirbúið sig aðstoðarlaust heima. Fyrir ungt og fullfrískt fólk er ekki réttlætanlegt að leggja fólk inn fyrir slíka rannsókn þar sem legudagur á sjúkrahúsi skiptir tugum þúsunda. Þú átt rétt á afsláttarkorti frá Tryggingastofnun ríkisins þegar lækniskostnaður hefur náð kr 18.000 (sjá meðfylgjandi frá heimasíðu TR, www.tr.is)

Varðandi sepana. Svokallaðir kirtilmyndandi ristilssepar (adenoma) eru taldir forstig ristilskrabbameins og þarf að fjarlægja alla slíka sepa. Ef separ finnast í stuttri speglun, eins og hjá þér, þá þarf að gera fulla ristilspeglun þar sem allt að 40% líkur eru á að aðrir separ finnist annars staðar í ristlinum. Þegar kirtilmyndandi separ hafa fundist þarf oftast reglubundið eftirlit þar sem nýir separ geta myndast, en misjafnt er hve langt þarf að líða á milli skoðana. Ef separnir eru margir og stórir er oft gerð önnur speglun að ári liðnu og síðan á 3-5 ára fresti ef engir separ fundust í síðasta eftirliti. Ef aðeins einn sepi finnst í þínu tilviki og hann er lítill (<1 cm) er líkleg nóg að endurtaka speglunina eftir ca. 5 ár. Það getur líka verið að sepinn hjá þér reynist ekki kirtilmyndandi, heldur af ovaxtargerð (hyperplastic) og þarf þá ekki frekara eftirlit. Separnir sem fjarlægðir eru, eru sendir í ræktun (smásjárskoðun) til að segja til um vefjagerð. Vona að þetta svari spurningum þínum.

Hámarksgreiðslur og afsláttarkort 

Hámarksgreiðslur gegn fullu gjaldi fyrir læknis- og heilsugæsluþjónustu á árinu: Hámarksgreiðslur gegn fullu gjaldi fyrir læknis- og heilsugæsluþjónustu á hverju almanaksári eru :
Fyrir einstaklinga, kr. 18.000 á ári.
Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega sem greiða lægra gjald fyrir læknis- og heilsugæsluþjónustu, kr. 4.500 á ári.
Fyrir öll börn yngri en 18 ára í sömu fjölskyldu, kr. 6.000 á ári.
Þeir sem hafa verið atvinnulausir í meira en hálft ár fá afsláttarkort eftir að 18.000 kr. markinu er náð. Eftir að hámarksgreiðslum er náð á viðkomandi rétt á afsláttarkorti. Þeir sem sækja um afsláttarkort eftir að hafa verið búnir að borga meira en sem nemur hámarksgreiðslunni, geta fengið 2/3 hluta af mismuninum endurgreiddan. *Frá apríl 1999.

Afsláttarkort
Þegar hámarksgreiðslu er náð fæst afsláttarkort gegn framvísun kvittana í þjónustumiðstöð Tryggingastofnunar á Laugavegi 114 og umboðum hennar utan Reykjavíkur. Gegn framvísun afsláttarkorts greiðist lægra gjald fyrir ofangreinda þjónustu. Afsláttarkortin gilda út almanaksárið. Kostnaður sem sjúkratryggður einstaklingur greiðir vegna heimsóknar til lækna án samnings við Tryggingastofnun telst ekki með þegar hámarksupphæðin er reiknuð saman. Kostnaður vegna flutnings með sjúkrabíl og tannlæknareikningar eru ekki heldur teknir með inn í hámarksupphæðina. Þótt hámarki vegna afsláttarkorts sé náð þarf áfram að halda saman kvittunum vegna læknisþjónustu og heilsugæslu. Fari kostnaður vegna læknisþjónustu, heilsugæslu og lyfja yfir ákveðið mark getur fólk átt rétt á endurgeiðslu. Endurgreiðslur vegna læknis-, lyfja- og þjálfunarkostnaðar eru háðar árstekjum (sjá upphæðir kafla 3 í handbók TR). Athugið að þegar sækja þarf endurgreiðslur til Tryggingastofnunar er óþarfi að koma. Nóg er að senda allar kvittanir og hægt er að fá afsláttarkort send í pósti og endurgreiðslur greiddar á bankareikninga. Þess þarf að gæta að reikningar séu rétt útfylltir og að fram komi banki, reikningsnúmer og kennitala þess sem við greiðslunni tekur. Einnig er hægt að nýta sér umslög hraðþjónustu og sleppa allri bið í þjónustumiðstöð. Allar nánari upplýsingar fást í 3. kafla í handbók TR.

 

 

 

Sigurbjörn Birgisson, læknir
Sérfræðingur í meltingarsjúkdómum