Er hægt að laga ,,latt auga“

Spurning:
Hæ hæ.
Ég er með ,,latt auga" og hef farið í aðgerð útaf því en það er fyrir svona sjö árum. Það var styttur vöðvinn í augnlokinu og læknirinn sagði að ef ég færi í aðra aðgerð þá myndi ég ekki geta lokað auganu alveg.
En er ekki hægt að fara til lýtalæknis útaf svona?
Er eitthvað hægt að gera til að laga þetta?
Takk fyrir frábæra síðu.

Svar:
Komdu nú sæl.Með ,,lötu auga" áttu væntanlega við svokallaða ,,lokbrá", eða ptosis á erlendri tungu. Í þeim tilvikum er annað augnlokið signara en hitt. Í þeim tilvikum er oft hægt að lyfta augnlokinu upp líkt og þú lýsir með því að stytta lyftivöðva augnloksins. Rétt er að ekki má stytta hann um of, því þú þarft að geta lokað auganu. Þetta er oft erfitt að meta, en þó er betra að vera of íhaldssamur en fara of geyst af stað, því það er mjög hættulegt fyrir augað ef augnlokið liggur of hátt og viðkomandi getur ekki lokað auganu og getur hlotist af því varanlegur augnskaði. Það eru afar fáir læknar sem framkvæma þessar aðgerðir hér á landi. Ég hef ekki áður bent á einstakan augnlækni hér á vefnum en geri hér með undantekningu á þeirri reglu: Ef þú hefur ekki áður farið til Haraldar Sigurðssonar, augnlæknis á Öldugötu 17 (s: 551 8181), myndi ég leita til hans og fá hans álit á þessum málum. Ef hann ráðleggur þér að láta hér við sitja myndi ég láta þar við sitja – ég veit ekki um nokkurn sem er honum fremri í þessum málum hér á landi – og þó víðar væri leitað.Bestu kveðjur og gangi þér vel!!Jóhannes Kári.