Er maðurinn minn veikur?

Spurning:
Mig langar til að komast að því hvort maðurinn minn er veikur. Hann hefur verið þunglyndur og tekið cipramil en er hættur því. Við skildum en tókum saman aftur og nú er hann farinn að haga sér óeðlilega að mér finnst. Það er mjög erfitt að tala við hann þar sem hann svarar engu af einlægni. Hann spyr aldrei neins heldur en tekur einhliða ákvarðanir sem varða okkur bæði. Þegar ég reyni að ná sambandi við hann lokar hann á mig. Hann hefur lítinn áhuga á kynlífi og hann hefur fengið hárlos á líkamann (það hefur gerst áður) þ.e.a.s. það eru skellur á fótunum sem eru hárlausar. Hann vill ekkert ræða þetta en gerir sem minnst úr því. Hann móðgast af minnsta tilefni og lítur á flest sem ég segi sem óréttmæta gagnrýni. Hann virðist vilja stjórna öllu einn og verður illur á svip en segir ekkert. Mér finnst hann eiga erfitt með að gleðjast og sýna samkennd. Þetta allt saman veldur mér mikilli spennu og á endanum bregst ég mjög illa við. Þá lætur hann eins og ég hafi gert á hans hluta og búið til vandamál þar sem hann sé saklaus með öllu. Samt segist hann oft hafa þjáðst af sektarkennd því ég kenni sér um alla hluti. Ég veit að ég er ekki fullkomin og gagnrýni hann kannski ósanngjarnt en innst inni finnst mér að eitthvað sé að honum því hann bregðist ekki eðlilega við. Hann segist ekki ráða við álag en það sem hann kallar álag finnst mér bara vera hluti af lífinu. Ég var sjálf glaðlynd og lífsglöð en er orðin mjög dauf og leið vegna þessa alls.

Getið þið sagt mér hvort það sé líklegt að eitthvað sé að geðheilsu hans eða ekki. Og þá hvert ég geti leitað eftir hjálp. Hvernig fæ ég hann til að viðurkenna ástandið og vilja takast á við það ef hann er ekki veikur .

Stundum er ég alveg að gefast upp og börnin okkar hafa þjáðst mikið vegna okkar og skilnaðurinn tók mjög á þau. Þegar hann var þunglyndur var hann alltaf langt niðri að mér fannst. Núna finnst mér stundum að hann sé með oflæti sem var ekki til hjá honum áður. Hann var áður fyrr mjög blíðlyndur og viðkvæmur, barngóður og sáttfús en átti alltaf erfitt með að höndla álag. Mér finnst líka oft sem hann sé í einhverskonar keppni við mig. Ef eitthvað tekst betur upp hjá honum en mér kemur undarlegt glott á hann. Ég veit að ég tók áhættu að taka saman við hann aftur og ég treysti mér illa í annan skilnað. Sérstaklega útaf börnunum. Er eitthvað sem ég get gert til að gera okkur lífið bærilegra. Hann hefur viðurkennt að hafa ætlað að brjóta mig niður andlega þegar við vorum gift. En á þeim tíma var hann að ásaka mig um að brjóta sig niður skipulega og viljandi eins og hann orðaði það.

Ég gæti skrifað 10 bls. Til viðbótar en vona að þetta dugi til útskýringar á líðan minni í dag.
Með von um skjót svör.

Svar:
Ég get ekki svarað því hvort maðurinn þinn sé veikur, en tvennt er augljóst af skrifum þínum. Í fyrsta lagi líður þér illa með það samband/hjónaband, sem þú ert í og í öðru lagi gengur þú út frá því sem vísu að það sé undir manninum þínum komið en ekki þér, hvort þú átt að vera í þessu sambandi/hjónabandi eða ekki.

Það er þitt að bregðast við þinni vanlíðan, ekki hans. Þú getur aldrei litið svo á að bara ef hann væri öðru vísi þá liði þér betur. Ef hann vill lifa svona lífi eins og þú lýsir, verður þú að taka ákvörðun um það hvort þú vilt lifa því með honum eða ekki. Ef þú tekur þá ákvörðun að gera það, getur þú ekki ásakað hann fyrir það. Það er þín ákvörðun. Slík er þín ábyrgð á þínu lífi. Þú getur ekkert gert til þess að breyta manninum þínum. Hann einn er fær um það. Það eina sem þú getur gert er að láta hann vita hvernig lífi þú viljir lifa og fara fram á það við hann að hann taki þátt í því. Ef hann kýs að lifa öðru lífi verður þú að velja hvað þú ætlar að gera. Ekki reyna að breyta honum gegn hans vilja. Ábyrgðin á því í hvers konar hjónabandi þú ert liggur hjá þér og engum öðrum. Þú ert líka sú eina sem getur gert eitthvað í því að breyta líðan þinni ef þér líður illa.

Niðurstaðan af þessu er sú að þú ert alltof meðvirk og sú meðvirkni gerir það að verkum að þú berð ekki ábyrgð á lífi þínu og reynir að finna orsakir fyrir vanlíðan þinni hjá öðrum en sjálfri þér og þínum ákvörðunum. Þessu þarft þú að breyta. Algerlega burtséð frá því hvort maðurinn þinn er veikur eða ekki.

Kær kveðja, Sigtryggur