Er matur úr örbylgjuofni óhollur?

Spurning:

Ég er einstæður karlmaður og þar sem ég vinn mikið á ég það til að elda kvöldmatinn í örbylgjuofni. Fyrir skömmu var mér bent á að slík eldunaraðferð rýrði næringargildi fæðunnar. Hefði ég mikinn áhuga á að fá svar við því hvort svo sé.

Kveðja,

Svar:

Flestir eru sammála um að næringarefnainnihald í mat úr örbylgjuofnum sé síst minna en í mat sem eldaður er á hefðbundinn hátt og jafnvel meira í sumum tilfellum. Matreiðsla veldur alltaf einhverju tapi á næringarefnum og þá aðallega á vatnsleysanlegum vítamínum (B-vítamínum og C-vítamíni) sem annað hvort leka út í vatn við suðu eða skemmast vegna hitunar. Þegar matur er eldaður í örbylgjuofni tapast minna af vatnsleysanlegum vítamínum heldur en við suðu. Þó er eitt vítamín mjög viðkvæmt fyrir örbylgjum, en það er B-12-vítamín, sem er aðallega að finna í kjöti og mjólkurafurðum. Til að koma í veg fyrir tap á vítamíninu ætti því frekar að nota venjulegan ofn eða pönnu við matreiðslu þessarra fæðutegunda heldur en örbylgjuofninn.

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir, næringafræðingur