Er með hækkað magn rauðra blóðkorna

Spurning:

Komið þið sælir sérfræðingar.

Ég er 18 ára drengur og nú í vikunni fór ég til læknis vegna verkja í brjóstkassa og vinstri handlegg en hann hef ég haft í nokkurn tíma. Læknirinn tók úr mér blóð og hringdi síðan þegar niðurstöðurnar komu. Þær sýndu það að ég var með hækkað magn rauðra blóðkorna. Hann sagði að það gæti verið vegna þess að ég hafi verið svangur (sem ég og var) en vill samt fá mig í aðra blóðprufu. Nú getur það vel verið að þetta hafi einungis verið vegna hungurs en mig langar að vita hvað þetta getur verið annað þegar einnig er tekið tillit til verkjanna sem ég hef haft lengi.

Kærar þakkir.

Svar:

Sæll.

Margar ástæður geta verið fyrir hækkuðu magni rauðra blóðkorna en flestar þeirra eru afar sjaldgæfar og oftast þegar slíkt greinist eru blóðprufur endurteknar til þess að staðfesta hvort um raunverulega hækkun blóðkornanna er að ræða eða ekki. Nokkrir blóðsjúkdómar eru til sem valda slíkri hækkun og er unnt að greina þá með blóðprufu og rétt að taka fram að afar sjaldan er um hættulega sjúkdóma að ræða. Mjög ósennilegt er að verkirnir sem þú lýsir standi nokkuð í sambandi við þessa hækkun á rauðum blóðkornum og ég reikna fastlega með að blóðprufan sem þinn læknir vill taka til að athuga málið nánar reyndist eðlileg.

Kveðja,
Emil L. Sigurðsson, heilsugæslulæknir.
Situr í stjórn Hjartaverndar.