Er með vefjagigt og vantar ráð?

Spurning:

Sæl.

Ég var greind með vefjagigt fyrir um 2 árum síðan. Heimilislæknirinn minn greindi mig og hefur hún staðið mjög faglega að öllu sínu starfi og er mjög góður læknir að mínu mati. Hún stökk ekki á þessa greiningu og hefur aldrei boðið mér neina skyndiafgreiðslu í neinum málum. Nú hef ég lesið eins mikið og ég get um sjúkdóminn bæði innlent og erlent efni.

Meðferð mín hefur byggst á sjúkraþjálfun, hreyfingu, góðum svefni með slökun og Amalíni en af því tek ég 25 mg á kvöldin og hef gert í 2 ár eða frá því ég var greind. Hefur því fylgt þyngdaraukning og finn ég einnig mun á andlegri skerpu minni þegar ég tek lyfið, ekki mikið en þó þannig að ég finn mun á mér.

Ég er í þannig starfi (er í fullu starfi og hef verið síðan að ég útskrifaðist úr háskóla) að það reynir á „hausinn" ef svo má að orði komast og er þar oft þó nokkur streita. Mér finnst ég því í dag standa frammi fyrir tvennu: annars vegar að vera skárri í skrokknum þegar ég tek Amalín en flöt andlega og þokukenndari eða að vera vel skýr í kollinum, "þokulaus" og án flatneskjunnar og þá með verki. Hvorugur kosturinn er betri en hinn og því spyr ég hvort að menn hafi farið aðrar leiðir við meðferð á vefjagigt og hvaða möguleikar séu í stöðunni.

Verkjatímabilið hjá mér núna hefur staðið sleitulaust í 9 mánuði. Ég tek ekki inn nein verkjalyf nema íbúfen ef ég hef mikla verki. Ekkis snerti ég nein codeinbaseruð verkjalyf né hef tekið svefnlyf enda tel ég að þannig aðferðir séu ekki lausnir til langframa.

Nú spyr ég: Þarf ég að taka Amalín til lengri tíma? Hvenær er ráðlegt að hætta því og hvaða leiðir get ég þá farið? Eru starfandi sérfræðingar sem þekkja vefjagigt í þaula? Hvar get ég nálgast þá?

Með kærri þökk.

Svar:

Sæl.

Þær leiðir sem helst eru notaðar í meðferð á vefjagigt eru þær sem þú telur upp í þínu bréfi. Þ.e. bæta svefn með notkun lyfja sem dýpka svefninn, regluleg slökun og hvíld, þjálfun til að auka þrek, liðleika og vöðvastyrk og sjúkraþjálfun eftir þörfum. Síðan er einstaklingsbundið hvort fleira er til ráða t.d. hagræða á vinnustað og/eða heimili til að minnka álag eða taka á streitu og kvíða.

Hvað varðar spurningar þínar um Amilín er best að leita svara hjá lækni. Gigtarlæknar eru með mikla reynslu varðandi vefjagigt og notkun ýmissa lyfja til að bæta svefninn.

Gigtarlæknar eru starfandi á Læknasetrinu í Mjódd, Gigtarfélaginu, Ármúla 5 og í Domus Medica.

Gigtarlína,
Gigtarfélags Íslands, gigt.is