Er mögulegt að hafa blæðingar á meðgöngu?

Spurning:

Sæll.

Ég veit að þið fáið mjög mörg og getið ekki svarað öllum en ég vona svo sannarlega að mitt verði eitt þeirra sem verður svarað. Ég þarf svo á því að halda.

Mig langaði að spyrja þig hvort það sé möguleiki á að hafa blæðingar á meðgöngu. Ég er 17 ára stelpa og hætti með kærastanum mínum í fyrra eftir nokkra mánaða samband. Við höfum samt sofið saman allt síðastliðið haust. Ég fór á pilluna um miðjan október, venjulega á maður að byrja að taka hana á fyrsta degi blæðinga en ég byrjaði á 4 degi (læknirinn sagði að það yrði í lagi ef ég myndi passa mig fyrsta mánuðinn). Ég svaf hjá stráknum þegar það voru komnir 6 dagar og við notuðum engar aðrar getnaðarvarnir. Svo þegar ég átti að fara á túr næst þá fór ég yfir tímann um viku og ég sem er alltaf alveg á hárréttum tíma fór að hafa smááhyggjur því ég var mjög slöpp þennan tíma og svoldið fyrir þetta líka og var búin að kasta upp morgnanna, en svo byrjaði ég á túr og þá var allt í lagi nema ég var bara 3 daga (venjulega er ég alveg viku). Þetta var í lagi og desember leið og ég fór aftur á túr, en aftur nokkrum dögum of seint og var bara mjög stutt, 3 daga. Ég var alltaf svolítið slöpp og fékk oft verki í leggöngin. Svo leið janúar og ég er byrjuð að fitna, en bara um magann, er komin með maga sem sést nema ég haldi honum aðeins inni en samt sést það aðeins. Ég hef alltaf verið mjög grönn og frekar létt (165 cm og var alltaf 50 kíló) en núna er ég orðin 54 en ég hef ekkert verið að borða neitt óhollara eða hreyft mig minna. Ég fór aftur á túr núna um daginn og eins og áður var bara 3-4 daga.

Ég hef heyrt að maður eigi að geta fundið legið stækka og harðna fyrir ofan lífbeinið og ef það er staðurinn sem ég held þá er hann harður hjá mér. Ég fæ oft smá verki í magann sem hverfa svo eftir smá tíma.

Ég bý úti á landi og þori ekki að kaupa þungunarpróf því það myndi fréttast. Ég er kannski bara smámunasöm en ég er svo hrædd og er búin að líða svo illa lengi. Er þetta einhver möguleiki, ég hef heyrt um stelpu sem var farið með upp á sjúkrahús um miðja nótt og hún átti barn um nóttina komin 8 mánuði á leið og hafði ekki hugmynd um það. Hún hafði farið á túr allan tímann og hafði öll fitnað og ekki grunað neitt. Ég vil ekki fara til læknis nema vita að þetta sé möguleiki? Ég er búin að vera aum í brjóstunum og mjög viðkvæm og grét mikið í desember út af engu. Ég vona að þú sjáir þér fært að svara mér því ég þarf virkilega á því að halda.

Takk fyrirfram!

Svar:

Sæl.

Það sem þú ert að lýsa er mögulega aukaverkun af pillunni. Það er ekki óalgengt að stúlkur þyngist aðeins þegar þær byrja að nota pilluna, eins styttast blæðingarnar gjarnan og held ég að það sé bara kostur. Skapbreytingarnar koma líka oft.

Það sem þú skalt þó gera er að fara til læknis, við viljum vera örugg um að þú sért ekki ólétt (ef þú hættir strax á pillunni). Það er heldur ekki útilokað þú hafir fengið kynsjúkdóm og myndi það skýra slappleikann og verkina í leggöngunum. Ekki bíða með það lengur að fara.

En ef allt er eins og það á að vera er sennilega bara best að þú prófir aðra pillu. Mundu þó eitt – þú verður að byrja að taka pilluna á réttum degi. Fyrstu dagarnir eru langmikilvægastir, ef þú gleymir síðustu 2 pillunum skiptir það ekki máli, en ef þú gleymir fyrstu 2 pillunum þá er mánuðurinn ónýtur og þú þarf að nota smokk.

Kveðja,
F.h. Félags um forvarnir læknanema, forvarnir.com
Jón þorkell Einarsson, læknanemi