Er möguleiki á að ég sé ófrísk?

Spurning:
Sæl Dagný, eina ferðina enn..

þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég skrifa í tengslum við það að reyna að verða ólétt og þakka ég þér enn og aftur fyrir að svara mér alltaf svona fljótt og vel. Nú er svo komið að ég fór til kvensjúkdómalæknis um daginn vegna þess að tíðirnar létu á sér standa. 2 dögum áður en ég átti að mæta til hans ákvað ég að taka þungunarpróf og það var jákvætt, og daginn eftir líka. Í skoðuninni sá hann ekkert með sónarnum en hann fann þykknaða slímhúð sem gat bent til mjög nýrrar þungunar. Ég var send beint í blóðprufu og út úr henni kom að ég var komin upp í 500 í þungunarhormóni sem telst nú frekar lítið ef ég hef rétt fyrir mér og mér fannst læknirinn eitthvað skeptískur á þetta allt saman. Fyrsti dagur síðustu blæðinga var 5.ágúst og í byrjun september þegar nýr tíðarhringur átti að hefjast fékk ég 2 jákvæð próf og neikvætt eftir það.

Er hægt að verða ófrískur án þess að hafa haft blæðingar? Þess vegna er ég að spá í hvort þetta geti verið möguleiki ?? Ég á að fara í sónar eftir viku og ég er að fara á taugum, það er svo vont að vita ekkert við hverju maður á að búast. Læknirinn talaði um að athuga hvort allt væri á réttum stað… hjálp… ein paranoid

Svar:
Hafir þú byrjað á blæðingum 5 ágúst hefðu, miðað við 28 daga tíðahring, átt að koma blæðingar 1. september. Hefðir þú orðið þunguð í þeim tíðahring hefði það átt að sjást í sónar í enda september. Hins vegar gætu hafa orðið tafir á egglosi og þú því komin skemur á leið þegar læknirinn skoðaði þig þannig að það sást lítið. Einnig er mögulegt að fósturvísirinn hafi visnað en haldi samt uppi smávegis þungunarhormóni sem gefi jákvætt þungunarpróf og tefji jafnframt fyrir að blæðingar hefjist. Það ætti að koma í ljós á næstu tveim vikum og allavega í sónar eftir þann tíma.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir