Er Neurontin gott við skjálfta í hendi?

Spurning:
Komdu sæll.
Er rétt að gefa lyfið Neurontin 300 mg við skjálfta á hendi þegar skrifað er með henni. Ég er á blóðþrýstingsmeðulum, hef farið í hjartaaðgerð, er með minnkun á starfsemi nýrnanna og einnig hefur verið minnkun á blóði hjá mér sem verið er að rannsaka núna. Ég tek einnig með þessu lyfið Primidon era. Ég er rétt að byrja að taka Neurontin og varð ansi slappur strax á fyrsta degi. 
Með kveðju.

Svar:
Neurontin er í sumum tilvikum notað við skjálfta eins og þú lýsir með góðum árangri.  Almennt milliverkar það ekki við önnur lyf og því ætti að vera óhætt að taka það með lyfjum við háþrýstingi sem og Primidon. Við minnkaða starfsemi nýrna þarf oft að minnka skammta af Neurontin. Læknirinn hefur vafalaust tekið tillit til þess þegar hann setti þig á lyfið.  Meðal aukaverkana af Neurontin eru: Svefnhöfgi, deyfð, þreyta, svimi, höfuðverkur, svefnleysi, þyngdaraukning, lystarleysi, ósamhæfðar vöðvahreyfingar, augntin, skjálfti, minnistruflanir, taltruflanir, náladofi, meltingartruflanir, ógleði og/eða uppköst, taugaóstyrkur, tvísýni og sjónskerðing.   Það er því ekki óeðlilegt að þú finnir fyrir slappleika fyrst eftir að þú byrjar að taka lyfið. Eftir tvær vikur hverfa aukaverkanirnar oftast.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson, lyfjafræðingur