Er nýorðin ófrísk og finn fyrir loftbólum

Spurning:

Kæra Dagný.

Ég er ung kona og á von á mínu 3 barni í haust. Ég er í 10 viku og er farin að finna fyrir loftbólum öðru hverju. Bæði ofarlega og neðarlega. Er þetta ekki fullsnemmt eða er ég bara svona næm? Svo finnst mér ég vera orðin svo hörð í „kúlunni” og tek ég aðalega eftir því þegar ég sit með börnin mín eða er að taka til dótið með þeim og beygji mig. Hægðirnar eru góðar miðað við hinar meðgöngurnar. Svo finnst mér miðað við hinar meðgöngurnar að ég er töluðvert meiri um mig og þá ekki eingöngu niðri heldur líka ofarlega en ég hef ekkert þyngst. En annars hef ég áhyggjur af því hve þreytt ég er og stöðugt kalt, eins og ég væri að fá hita (en svo er ekki). Þetta er svo ólíkt hinum meðgöngunum mínum að ég vil gjarnan fá einhver ráð.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Allar líkur eru á að loftbólurnar sem þú finnur séu í raun loftbólur í ristlinum, þ.e. ef þú ert einungis komin 10 vikur. Það er í raun ómögulegt að finna fyrir fóstrinu svona snemma. Ef farið er að sjá á þér getur það bent til þess að þú sért lengra gengin en 10 vikur, þú gangir með fleiri en eitt fóstur eða að þú sért bara svona uppþemd og þetta sé ristillinn sem tekur svona mikið pláss. Það eru nú mestar líkur á þetta síðasta eigi við, sérstaklega af því að þú finnur svona miklar loftbólur og kúlan byrjar svona ofarlega. Nú fer að líða að fyrstu mæðraskoðun hjá þér og þá getur þú fengið staðfestingu á meðgöngulengd og rætt þetta við þína ljósmóður og lækni.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir