Er örlítið yfir meðalþyngd, en er sagt ég sé of feit

Spurning:

Sæll.

Ég er 17 ára stúlka og hef alltaf verið örlítið yfir meðalþyngd en mér hefur ekki fundist það vera vandamál hingað til. Ég flutti út á land og bý þar hjá fjölskyldu og er móðirin allaf að segja mér að ég sé feit og að ég verði að grennast og það sem fyrst! Ég brugðið á það ráð að æla matnum mínum hvert sinn er ég borða. Ég veit að það er ekki heilbrigt en ég hef ekki aðra lausn!

Núna er ég 68 kíló og finnst það alltof mikið! Hvað er hægt að gera til þess að léttast snögglega?
Med von um gott svar.

Takk fyrir.

Svar:

Komdu sæl.

Þú lýsir því að þú hafir alltaf verið sátt við að vera aðeins yfir meðalþyngd en nú hafi komið upp aðstæður í lífi þínu sem gera þér erfitt fyrir að vera áfram sátt við það. Mér þótti gott að heyra að þú hefur hingað til verið sátt við að vera aðeins yfir meðalþyngd og ekki látið áhrif auglýsinga og hégómlegs umtals um það hvernig maður eigi að líta út, hafa áhrif á þig. Það sýnir að þú hefur ákveðinn styrkleika, að vera sátt við það hvernig þú ert, en það er eitt af lykilatriðum góðrar geðheilsu.

Þess vegna myndi ég eindregið ráðleggja þér að halda þínu striki í þessum efnum eins og þú gerðir og láta konuna ekki hafa áhrif á þig. Þú ert enn á viðkvæmum aldri og því móttækileg fyrir ýmsum áhrifum, m.a. frá þessari konu, en mestu máli skiptir hvernig þér líður og að þú sért sátt. Mikilvægt er að þú finnir að ÞÚ skiptir máli óháð því hvernig þú lítur út. Það eru miklir fjötrar að þurfa sífellt að vera að hugsa um vigtina. Sumir eru bara þannig gerðir að vera svolítið yfir einhvers konar kjörþyngd án þess að það hafi slæm heilsufarsleg vandamál í för með sér. Mikilvægt er að borða reglulega og hreyfa sig reglulega, það er engin skyndilausn til við að grenna sig. Auk þess getur þannig kúr verið slæmur fyrir líkamann og rannsóknir hafa sýnt að megrunarkúrar skila ekki langtíma árangri. Reglulegir matmálstímar með hollu fæði, að passa sig á fitunni, gosi og sælgæti er málið, en þetta veist þú örugglega. Það er mikilvægt að þú sjálf grípir inní núna áður en þyngdin verður að vandamáli, því þú hefur sýnt að þú hefur styrk til að vera sátt við þyngdina, og sjálfa þig þar með.

Gangi þér vel, hér eftir sem hingað til.
Margrét Bárðardóttir, sálfræðingur