Erfið fæðing – eftirköst?

Spurning:
Góðan dag.
Fyrir 4 árum eignaðist ég mitt fyrsta barn. Fæðingin gekk vægast sagt hörmulega. Dóttir mín hafði ekki skorðað sig. Ég var með ,,fyrirvaraverki" í um 10 daga áður en fæðingin var sett af stað. Ég var sett af stað með því að skilja að belgina. Eftir tæpa 3 sólarhringa, búið að skilja belgina að 3 sinnum, sprengja belginn, labba gangana endalaust, dripp og allar hundakúnstir. Þá var dóttir mín loks tekin með keisara. Það kom í ljós að hún var með höfuðið svolítið á hlið í grindinni. Eftirköst þessarar fæðingar voru ótrúlega mikil. Það var skilinn eftir pínulítill fylgjubiti. (Sem að ég lái engum, því að ég hef fengið að vita að það er mjög erfitt að sjá þegar að lítlli biti af fylgjunni skilur sig að) En þetta olli því að það blæddi inni í legið. 10 dögum eftir fæðingu stóð ég allt í einu í blóðpolli. Lækninum á vakt fanst það ekki merkilegra en svo að mér var sagt að koma daginn eftir. (símaviðtal).
Um nóttina blæddi mér og blæddi, á endanum þegar að ég gat varla staðið sjálf hringdi ég upp á spítala. Eftir símaviðtal við hjúkrunarfræðing sem að vildi helst senda sjúkrabíl eftir mér var farið með mig á kvennadeildina. Ég missti mikið blóð og þurfti að fara í skrap. Eftir skrapið var ég lögð inn þrisvar sinnum vegna sýkinga. (Þar sem að enginn las skýrsluna mína, eða athugað niðurstöður úr rannsóknum þá var ég með sýkingu í leginu í um 8 vikur). Fékk ekki nógu sterk sýklalyf til að kveða þetta niður, sem að gerði það að verkum að það fór að grafa, og ég endaði með samgróninga í kviðarholi.
Ég hef þegar þurft að fara í 2 aðgerðir vegna þessara samgróninga. Eftir ótrúlega röð af mistökum sem að munu marka líkama minn það sem að eftir er, á ég orðið erfitt með að treysta læknum. Mér virðist sem að fæstir þeirra hafi tíma til að hlusta, og að þeir taki lítið mark á því sem að sjúklingar þeirra eru að segja. Það er því auðveldara að setja þetta á blað. Ég treysti mér svo sannarlega ekki aftur í þetta ferli nema að ég viti hvort að ég geti í fyrsta lagi gengið með barnið og hvort að eðlileg fæðing sé yfir höfuð möguleg í mínu tilfelli.
Hvernig stendur á því að ekki var athugað hvers vegna hún skorðaði sig ekki ekki ? Er einhver leið til að athuga hvort að það sé eitthvað að grindinni á mér sem að myndi þá valda því að höfuð barns geti ekki gengið niður? Geta þessir samgróningar orðið mér til trafala ef að ég ætla að eignast annað barn? Ég vona að þið getið svarað mér einhverju.
Besta kveðja

Svar:
Það er ömurlegt að lenda í svona erfiðri fæðingarreynslu og skiljanlegt að þú eigir erfitt með að treysta heilbrigðisfagfólki í kjölfarið. En oft er erfitt að sjá fyrir hvernig fæðing muni fara. Þótt barn sé ekki skorðað í upphafi fæðingar getur fæðing gengið ljúflega fyrir sig og það er engin leið að vita hvernig barnið kemur til með að snúa kollinum í fæðingunni. Barn getur farið beint niður í grind en svo snúið upp á sig eða hallað undir flatt án þess að neitt sé að grindinni. Sú aðferð sem notuð er til að meta grindarbyggingu er að taka röntgenmynd innan úr mjaðmagrindinni. Sú aðferð segir þó ekki endilega um hvort viðkomandi barn komist í gegn um hana nema í sérstökum tilvikum þar sem grindin er skökk eða mjög þröng. Varðandi samgróningana þá er ólíklegt að þeir hafi mikil áhrif á meðgöngu, utan meira tog þegar legið stækkar, en þeir gætu haft áhrif á frjósemi.

Ef þú hugar á nýja meðgöngu teldi ég ráðlegast fyrir þig að velja þér fæðingalækni sem þú telur að þú getir treyst, fara með honum/henni yfir síðustu fæðingu og leggja drög að nýrri meðgöngu þannig að þú sért í sömu höndum alla meðgönguna, bæði hjá lækni og ljósmóður. Svo er ekki vitlaust að hitta ,,ljáðu mér eyra" teymið á LSH sem sérhæfir sig í aðstoð við konur sem lent hafa í erfiðri fæðingarreynslu. Í því eru ljósmæður, læknar og sálfræðingar.

Vona að þetta gangi allt vel hjá þér.

 

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir