Erfiðleikar með að sofna á kvöldin?

Fyrirspurn:


Þetta varðar son minn sem er 6 ára.
Síðan hann hætti á bleyju (3ja ára) hefur mér fundist hann fara frekar oft á klósettið að pissa. Síðan gerist það þegar hann er orðinn 5 ára að þetta eykst og fer að há honum í leik og starfi og fóstrurnar á leikskólanum byrja að kvarta undan þessu. Á kvöldin þegar hann var kominn upp í rúm var þetta komið í það óefni að hann fór upp í 40 ferðir á klósettið. (Og þegar ég segi 40 þá meina ég 40, ég taldi ferðirnar.) Það er búið að fara með hann ótal sinnum til læknis, setja þvagsýni í ræktun, spegla blöðruna en ekkert finnst að. Svo var ákveðið núna í mars að prófa að víkka forhúðina og hann var settur á sýklalyf. Eftir það lagaðist þetta þar til núna nýlega. Þetta er aftur að verða vandamál, ég er búinn að fara með hann til læknis og eins og venjulega finnst ekkert að. Hann segir að þetta sé pirringur fremst í tippinu en læknarnir sjá ekkert athugavert. Að auki er hann með þrálátann hósta og ræskingar þannig að hann á mjög erfitt með að sofna á kvöldin og er að gera alla á heimilinu gráhærða. Ég er fainn (og hef svo sem hugsað það áður) að halda að þetta sé eitthvað andlegt og allar þessar ferðir til lækna hafi í raun verið til að auka vandamálið. Hann er mjög þroskaður andlega og veit stundum meira en hann hefur gott af. Er með áhyggjur af mjög mörgu og því fylgir mikið stress. Annars er hann yfirleitt mjög kátur og skemmtilegur þar til kemur að því að fara að sofa, þá virðist þetta blossa upp.

Við erum ráðþrota í stöðunni og oft á tímum á mörkunum með að gefast upp (ef það er þá hægt). Drengurinn er oft upp í 3 klst. að ná að sofna og flest öll kvöld ónýt hjá okkur foreldrum hans út af þessu veseni.

Hafið þið einhver ráð?
Hvert getum við leitað annað en á barnaspítalann?
Er málið að leita til sálfræðings?

Kveðja,

Svar: 

Sæl/sæll,

Ef búið er að útiloka að eitthvað líkamlegt geti valdið þessu -eins og mér sýnist á svari þínu þá beinist athyglin eðlilega að sálarlegu hliðinni. Það er alveg hugsanlegt að það hafi verið eitthvað sem kom þessarri hegðun af stað (pirringur í tippinu eða þröng forhúð) en svo hafi drengurinn festst í þessu hegðunarmynstri – ekki ólíkt því sem gerist stundum með óvær börn. Þau byrja að vera óvær vegna kviðverkja en halda svo áfram að vera óvær eftir að verkirnir eru horfnir vegna þess að þau kunna ekki annað. Hóstinn og ræskingarnar geta verið vísbending um þetta (kækir eða ávani ?).
Þú spyrð um ráð eða hvert þið getið leitað.
Barnalæknir með sérmenntun í þvagfærasjúkdómum er starfandi í Reykjavík og ætti hann að geta útilokað að vandinn sé af þeim toga ef ykkur finnst það ekki liggja nægilega ljóst fyrir.
Barnasálfræðingur getur án efa gefið ykkur ráð varðandi það hvernig best sé að losna úr vítahring kvöldanna ef annað er klárlega í lagi. Ég læt fylgja með netslóð sem þið getið athugað  http://www.barnasalfraedi.is/ Vonandi kemur þetta að gagni- gangi ykkur vel.

Bestu kveðjur,
Guðrún Gyða Hauksdóttir
hjúkrunarfræðingur