Eru dietmatur og drykkir óhollir?

Spurning:

Mig langar að vita hvort „diet" matur og drykkir séu óhollir, þ.e. hvort maður fær ekki þau næringarefni sem líkaminn þarfnast?

Svar:

Það að kalla vöru „diet" eða „létta" flokkast í reglugerð Hollustuverndar Ríkisins undir næringarfræðilegar fullyrðingar. Vöru má aðeins merkja á þennan hátt ef orkuinnihald í vörunni er að minnsta kosti 25% minna en í sambærilegri vöru. Þetta er til dæmis hægt að gera með því að minnka fituinnihald í vörunni, sem er oft til bóta. Annað er að minnka sykurinnihald, eða nota tilbúin sætuefni í staðinn.

Óhollustan fer í rauninni eftir því hver varan er. „Diet" drykki er ekki hægt að telja óholla í sjálfu sér, en hollir eru þeir ekki þar sem bætiefnin vantar. Þeir geta þó leitt til óhollra neysluvenja ef þeir koma í staðinn fyrir hollari drykki, svo sem ávaxtasafa og mjólk. Sætuefnin sem notuð eru í „diet" drykki eru ekki skaðleg nema þeirra sé neytt í mjög miklu magni og hæpið að hægt sé að innbyrða svo mikið magn með því einu að þamba slíka drykki.

Oft eru „diet" vörur beinlínis óhollar, ef um er að ræða vöru sem er þrátt fyrir orkuskerðinguna mjög fiturík og inniheldur lítið sem ekkert af vítamínum og steinefnum. Þá er hollara að fá sér eitthvað annað. Þó er ekki þar með sagt að allar „diet"-vörur séu óhollar – síður en svo. Það er í mörgum tilfellum mjög til bóta þegar orkuinnihald er skorið niður, t.d. með því að nota minni fitu eða minni sykur í vörurnar. Oft er einnig um að ræða næringarríkar fæðutegundir sem hafa verið orkuskertar. Það þarf því að meta hverja „diet"-vöru fyrir sig: Inniheldur varan nauðsynleg næringarefni? Er um að ræða næringarsnauða vöru sem eingöngu gefur orku? Síðan er hægt að taka ákvörðun hvort valið standi milli „diet"-vörunnar eða sambærilegu vörunnar – eða hreinlega allt annarrar fæðutegundar!

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir, næringafræðingur