Eru endaþarmsmök ,,eðlileg“

Spurning:
Endaþarmsmök, eru þau ,,eðlileg" og hvers þarf að gæta að?

Svar:
Það er hægt að skilja hugtakið ,,eðlilegt” með mörgum hætti. Endaþarmurinn og svæðið í kringum hann er úr sama vef fósturfræðilega séð og kynfærin svo það ætti ekki að koma mikið á óvart að einhverjir hafi tekið eftir því.
Minnihluti fólks hefur prófað endaþarmskynmök eða stundar þau. Hversu margir stunda endaþarmskynmök hér á landi er ekki nákvæmlega vitað en íslensk kynlífsrannsókn 1992 sem gerð var meðal almennings á aldrinum 16-60 ára leiddi í ljós að svipaður fjöldi karla og kvenna hefur einhvern tímann haft mök í endaþarm eða um sextán prósent. Ekki var spurt um kynferðislega örvun endaþarmsins með öðrum hætti svo sem með fingrum eða öðru. Hefði það verið gert hefði talan líklega orðið hærri.

Í könnuninni kom fram að mök í endaþarm er hegðun sem viss fjöldi bæði karla og kvenna stunda eða hafa prófað og að hegðunin er ekki einskorðuð við samkynhneigða karlmenn eins og margir halda.

Ef rétt er staðið að örvun endaþarmsins, þar með taldar samfarir,  á sú örvun að vera sársaukalaus. Sársauki, sama hvar hann á upptök sín í líkamanum, er alltaf merki um að eitthvað sé að. Endaþarmurinn er ríkulega búinn taugaendum og ef of harkalega eða klaufalega er staðið að örvuninni eru auðvitað meiri líkur á sársauka. Eins og áður sagði er vefurinn í endaþarminum upprunalega af sama meiði og sá vefur í fóstrinu sem þróast í kynfæri. Þessi staðreynd, ásamt því að svæðið hefur í sér ofgnótt taugaenda, ætti að útskýra hvers vegna endaþarmurinn getur veitt kynferðislega ánægju fyrir elskendur.  

Þegar fingur, limur eða hlutur er settur inn um endaþarminn bregðast hringvöðvarnir í rassopinu þannig við að þeir herpast saman. Ef viðkomandi nær ekki að slaka vel á,  á þessu augnabliki, veldur áframhaldandi innfærsla örugglega sársauka. Þess vegna er mikilvægt að taka tillit til bólfélagans og staldra (eins oft og þörf er á) við í byrjun innfærslu limsins eða þar til hann eða hún nær að slaka nógu vel á. Stundum kemur fyrir að þótt innfærslan gangi að óskum þá er móttakandinn (sá sem fær liminn inn í sig) samt ekki til í þessa kynlífsathöfn.  Þá þarf að taka mið af því og hætta. Hér er einkar mikilvægt að ganga ekki lengra en löngunin segir til um.

Endaþarmurinn framleiðir heldur ekki slím í sama mæli og leggöngin. Þess vegna þarf alltaf að nota vatnsleysanlegt sleipiefni við rassmök. Fituleysanleg smyrsl eins og til dæmis vaselín hentar ekki sem sleipiefni, það eyðileggur gúmmí í smokkum enda er vaselín ekki hugsað sem sleipiefni heldur fyrst og fremst sem húðvörn.

Slímhúðin í endaþarminum er sérstaklega viðkvæm fyrir hnjaski. HIV-veiran getur borist með sæði eða blóði inn í blóðrásina ef slímhúðin rofnar. Af þeim sökum er mælt með notkun smokkins við mök í endaþarm, m.a. til að draga úr líkum á alnæmissmiti.

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir