Eru miklar líkur á HIV smiti við munnmök?

Spurning:

Sæll.

Ég er samkynhneigður unglingsstrákur og ég var að velta því fyrir mér hvort það séu miklar líkur á HIV smiti í gegnum munnmök?

Ég veit að það sé hægt að fá Herpes og vörtur, en er hægt að smitast af sjúkdómum eins og HIV í gegnum munnmök? Ég nota alltaf smokk við endaþarmsmök en mér finnst alltaf smokkurinn vera bara fyrir ef það á að nota hann fyrir munnmök. Því er ég forvitinn að fá að vita hvort ég gæti smitast af HIV við munnmök og ef það er hægt hversu miklar líkur það eru á smiti, er það alltaf eða bara þegar maður er með sár í munninum ?

Kveðja.

Svar:

Sæll.

Það er eins með þetta eins og svo margt annað í læknisfræði, það er aldrei hægt að segja aldrei. Líkurnar á því að smitast við munnmök verða þó að teljast stjarnfræðilega litlar. Það er þó alltaf aukin hætta á smiti á HIV – hvort sem um er að ræða munnmök eða endaþarmsmök – ef annar aðilinn er til dæmis með sár í endaþarmi eða á tippinu. Eins er talvert aukin áhætta ef fyrir eru aðrir kynsjúkdómar, eins og til dæmis herpes. Samt er áhættan mjög lítil. Ég verð þó að ráðleggja þér að fara varlega. Það er ekki til neitt sem heitir öruggt kynlíf, maður verður bara að hafa það eins öruggt og unnt er.

Kveðja,
F.h. Félags um forvarnir læknanema, forvarnir.com
Jón þorkell Einarsson, læknanemi