Eru öll sterk geðlyf ávanabindandi?

Spurning:
Heill og sæll.
Langar að vita hvort sterk geðlyf séu öll ávanabindandi.

Svar:
Venjulega eru lyf sem falla undir flokkana N05 og N06 í ATC lyfjaflokkunarkerfinu kölluð geðlyf. Þetta er fjölbreyttur hópur lyfja með mjög mismunandi verkun og eru notuð við ýmsum og oft mjög ólíkum sjúdómum af geðrænum toga.  Það tíðkast ekki að flokka geðlyf þannig í sterk eða veik geðlyf, heldur er flokkunin miðuð í fyrsta lagi við hvers konar verkun þau hafa og síðan eru efnafræðilega skyld lyf flokkuð saman.  Flest lyf, en ekki öll, sem eru í flokkunum N05B, Róandi og kvíðastillandi lyf (anxiolytica), N05C, Svefnlyf og róandi lyf (hypnotica og sedativa) og N06B, Örvandi lyf psycostimulantia) og lyf sem efla heilastarfsemi (nootropics) geta talist ávanabindandi. 
Önnur geðlyf eins og sefandi lyf (neuroleptica) og þunglyndislyf (antidepressiva), sem eru mjög stórir lyfjaflokkar eru ekki á neinn hátt ávanabindandi. Í fyrrnefnda flokknum eru m.a. lyf sem notuð eru við alvarlegum geðtruflunum eins og geðklofa (schizophrenia) og fleiri sjúkdómum.  Annar flokkur lyfja sem inniheldur ýmis ávanabindandi lyf er verkjalyfin.  Ýmis lyf sem eiga uppruna sinn í ópíumvalmúanum (ópíóíðar) eru notuð við verkjum og eru sum hver mjög ávanabindandi. Þekktast þeirra er að sjálfsögðu morfín, en önnur eru lyf eru t.d. petidín, fentanýl, hýdrómorphón, cetóbemídón og kódeín. Þessi lyf eru ekki flokkuð sem geðlyf þó svo að þau hafi vissulega áhrif á miðtaugakerfið. 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson, lyfjafræðingur