Eru til „karlsjúkdómalæknar“?

Spurning:

Sæll Arnar.

Er ekki til einhvers konar læknir fyrir karlmenn, svona eins og kvensjúkdómalæknar eru fyrir konur, þ.e. ef vandamál eru með frjósemi hjá karlmönnum? Ég spyr nú vegna þess að við hjónin (barnlaus og bæði hátt á þrítugsaldri) höfum reynt hnitmiðað að verða ófrísk í yfir 2 ár, en ekkert gengur. Ég hef reglulega verið skoðuð og mæld á þessu tímabili og fengið allt gott út úr því, en maðurinn minn hefur tvisvar á þessu tímabili mælst með svokallað „latt“ sæði. Hvað gera bændur nú?

Getur maðurinn minn farið til einhvers „karlsjúkdómalæknis“?

Svar:

Komdu sæl.

Slíkir læknar kallast þvagfærasjúkdómalæknar og er stór hópur starfandi og þú finnur þá á gulu síðunum í símaskránni.

Hins vegar er það venja að við kvensjúkdómasérfræðingar leiðbeinum skjólstæðingum okkar gegnum þetta ferli, svo ég vona að ykkar læknir hafi gert það eða hafi ætlað að gera það. Það er oft hægt að fríska upp á latt sæði! og þvagfæralæknir gæti rannsakað mann þinn ef þið hafið ekki fengið nein ráð hjá ykkar lækni. Kannski hafið þið ekki rætt það. Þetta er tiltölulega einfalt kerfi að ganga í gegnum.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson dr. med.