Exem í hársverði

Spurning:

Ég er 51 árs gömul kona sem þjáist af miklu staðbundnu exemi eða psoriasis í hársverði, nánar tiltekið neðst á hnakka. Ég fór til húðsjúkdómalæknis fyrir 3 árum og ráðlagði hann mér AVP (minnir mig að nafnið sé), krem og tjörusjampó, T-gel sem ekki er lengur flutt inn. Ég var svona þokkaleg með köflum með því að nota þetta – en síðasta hálfa árið hef ég ekkert ráðið við þetta. Þegar kláðinn er mjög mikill við nota ég Betnovat og skyldar lausnir en það gefur bara stundarfrið. Þetta er mjög bagalegt fyrir mig. Fyrir utan mikil óþægindi, eru herðar og bak þakið hvítri flösu sem er ekki beint huggulegt á dökkum „Uniforms" jakka. Auk þess er hársvörðurinn mjög aumur og sár og svíður undan Betnovat. Í stuttu máli er ég að verða vitlaus. Er ekkert til hjálpar?

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Það er leiðinlegt að heyra hversu slæm þú hefur verið í hársverðinum. Til þess að greina hvort er um exem eða posoriasis er að ræða þyrfti ég að skoða hársvörðinn til að geta ráðlagt þér nákvæmlega.

Exem í hársverði er nokkuð algengt, en helstu einkenni þess eru þurrir hvítir blettir í hársverði og jafnvel fylgir roði á húðinni í kring. Þessu fylgir svo kláði og það sem í daglegu tali kallast flasa. Þegar ástandið er slæmt er gjarnan byrjað á að nota stera að morgni og þvo svo hárið að kvöldi með lyfjasápu sem inniheldur efni sem kallast ketoconazol. Þegar einkennin eru farin að lagast er dregið úr meðferðinni smám saman, sterunum hætt en haldið áfram með hársápuna. Mikilvægt er að nudda hársápunni vandlega inn í hársvörðinn og láta bíða í 3-5 mín. áður en hún er skoluð úr. Hársápuna er hægt að kaupa án lyfseðils í öllum apótekum og kallast hún Fungoral, en steralausnir er ekki hægt að fá nema gegn lyfseðli. Psoriasis í hársverði einkennist af vel afmörkuðum, upphleyptum rauðum blettum sem eru hrjúfir viðkomu og yfir þeim er silfurlit skán. Þessu fylgir kláði og einnig flasa. Ekki er til nein ein meðferð sem hentar öllum og nauðsynlegt að prófa sig áfram til að finna þá meðferð sem hentar sjúklingnum. Tjörusjampó fást í flestum apótekum undir nafninu Polytar og ráðlegg ég þér eindregið að byrja notkun þess aftur ef það gagnaðist vel. Tjörusjampó má nota með lyfi sem kallast Daivonex, það er D-vítamín afleiða og fæst ekki nema gegn lyfseðli. Áður en lausnin er borin á blettinn er mikilvægt að hreinsa alla skán vandlega burt og nudda lyfinu vel inn í blettinn og þvo svo hendur vel. Einnig hafa A-vítamín afleiður verið notaðar með ágætum árangri, ásamt meðferð með steralausnum. Bæði þessi lyf eru lyfseðilsskyld.

Ég ráðlegg þér eindregið að hafa aftur samband við heimilislækninn þinn og fá hann til að skoða hársvörðinn vandlega og finna þá meðferð sem hentar þér best og er ég alveg sannfærð um að þið finnið lausn á þessum hvimleiða kvilla.
Gangi þér vel.

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir