Fæ ekki fullnægingu?

Spurning:
Hæ, hæ, ég á við stórt vandamál að stríða og ég held að það sé kominn tími á að spyrja sérfræðinginn!! 🙂 Ég á í alveg rosalegum erfiðleikum með að fá fullnægingu, hef í raun aldrei fengið eina slíka! Mér finnst ég vera búin að prófa allt sem mér dettur í hug, bæði með sjálfri mér og með fyrrverandi. Ég fæ vissa vellíðunartilfinningu, en það virðist bara vera örvun, því hún er stöðug og það er aldrei neinn endapunktur. Á endanum verður hún bara að sársauka.
Ég veit að vandamálið er ekki það að ég hafi ekki gaman af kynlífi, sá áhugi er til staðar, en ég vil ekki þurfa að ,,feika" í hvert skipti! Ég fann það að þetta dró mjög úr sjálfsáliti fyrrverandi kærastans míns og endaði með því að eftir tvö ár af tilraunum (no joke!!!) þá hætti hann að nenna að reyna. Hann hélt að ég væri bara að reyna láta honum líða betur með því að segja að þetta væri mitt vandamál, ekki hans. Ég vil helst reyna að koma fyrir það að lenda í svona aftur og er til í að reyna hvað sem er. Getur verið að snípurinn á mér sé eitthvað gallaður, er það möguleiki? Ég var mjög mikið í íþróttum þegar að ég var yngri og hjólaði mikið á hjóli með ,,strákastöng" og man eftir dottið með klofið ofan á hana (veit ekki alveg hvernig ég á að orða þetta :)) allavega 2 – 3 skipti. Ég heyrði einhvern tíma að það gæti valdið örum á kynfærunum sem gæti leitt til svona fullnæingarörðuleika. Er eitthvað til í því? Er eitthvað annað sem gæti verið að og er einhver von um að geta lagað þetta? Með fyrirfram þökk! 🙂

Svar:
Sæl og blessuð, áhyggjuefni þitt er ekkert einsdæmi og verður ekki leyst með stuttu svari. Kynferðisleg reynsla og upplifun hjá konum er afskaplega mismunandi og hvort sem þú trúir því eða ekki þá er fullnæging ekki það sem konur meta mest í sambandi við kynlífsreynslu sína. En sumar konur fara að keppast það mikið við að fá fullnægingu að það dregur stórlega úr allri annarri ánægju í sambandinu. Það að fá ekki kynferðislega fullnægingu er heldur ekki sjúkdómur og það verður þú að muna. Frekar má segja að konur eigi mis auðvelt með að fá fullnægingu.

En til að byrja með vil ég ráðleggja þér að steinhætta að vera að reyna það mikið að á ,,endanum verður hún (örvunin) bara að sársauka" eins og þú segir.
Það eru enn minni líkur á að fullnæging komi ef þú finnur til sársauka.

Það er þrennt sem skiptir máli í sambandi við heildarútkomuna í kynmökum, ef svo má komast á orði. Það er hvaða örvun þú ert að fá, hvernig líkamanum tekst að bera boðin um örvunina og í síðasta lagi hvaða merkingu eða þýðingu kynmökin hafa í þínum huga. Þetta síðast nefnda atriði hefur mikið að segja. Til að athuga hvað sér í gangi hjá þér yrði að skoða hvaða örvun þú ert að fá, hvernig andlegri og líkamlegri heilsu þinni er háttað og hvernig þú upplifir það sem þú ert að gera með núverandi kærasta. Það er engin leið að meta alla þessa þætti á þeim upplýsingum sem þú veitir en mig grunar að ástæðan fyrir líðan þinni sé ekki hugsanleg örvefsmyndun á snípnum frá því þú dast á hjólinu sem unglingur.

Það er alltaf von ef þú hefur áhuga á að skoða ,,heildarútkomuna" betur.

Kveðja,
Jóna Ingibjörg Jónsdóttir, hjúkrunar- og kynfræðingur