Felden Gel með brjóstagjöf?

Spurning:

Ég hef verið með grindargliðnun og er hjá sjúkraþjálfa vegna þess. Sjúkraþjálfinn mældi með að ég notaði lyfið Felden Gel en eftir að hafa lesið um það á Doktor.is þá komst ég að því að það megi ekki nota það á meðan brjóstagjöf stendur. Getur þú sagt mér af hverju? Hefur það mikil áhrif á mjólkina? Er verkunin ekki bara staðbundin?

Svar:

Það á við um flest lyf að hvorki þungaðar konur né konur með börn á brjósti eiga að nota þau nema að brýna nauðsyn beri til. Er þá gengið út frá því að gagn móðurinnar af lyfinu sé meira en sú áhætta sem er tekin varðandi verkanir á fóstur eða barn á brjósti. Þar sem lyf eru aldrei prófuð á þunguðum konum eða á konum með börn á brjósti, þegar verið er að þróa og markaðssetja lyf, er venjulega ekki vitað mikið um áhrif á fóstur eða brjóstmylkinga.

Felden gel inniheldur píroxíkam og frásogast það í blóðrásina en í miklu minna mæli en ef um töflur væri að ræða. Það eru því líkur á því að það komist í brjóstamjólkina.

Með kveðju,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur