Fjölbreyttara fæði fyrir 9 mánaða?

Spurning:
Halló!
Ég á 9 mánaða dreng sem er með mjólkurofnæmi og ég er eiginlega farin að hafa áhyggjur af næringu hans. Hann er enn á brjósti og er enn að borða gerber hafragrautinn og ég blanda hann oft með ávaxta- eða grænmetismauki, svo fær hann soyjajógúrt og mjólkurlaust brauð með beikonkæfu. Á kvöldin gef ég honum svo ókryddað kjöt ef það hentar honum (þ.e.a.s. það kjöt sem við borðum) annars bara eitthvað af ofangreindu. Ég hef haldið honum alveg frá fiski, eggjum, hnetum og öðrum ofnæmisvaldandi fæðutegundum eins og læknirinn sagði mér að gera. Mér finnst þetta svo einhæft fæði og mér bara dettur ekkert annað í hug.

Svar:
Komdu sæl.
Sannast sagna finnst mér þú standa þig afskaplega vel. Þér finnst fæðið sem sonur þinn neytir einhæft en í reynd telurðu upp fæðu úr flestum fæðuflokkum – s.s. mjólk, korngraut, brauð, ávexti, grænmeti og kjöt. Ég tel þig ekki þurfa að hafa áhyggjur af því að sonur þinn nærist ekki vel, a.m.k. ekki á meðan þú hefur hann á brjósti. En ég geri ráð fyrir að hann þrífist eðlilega fyrst þú minnist ekki á annað. Þegar þú hættir með drenginn á brjósti og ef þú ert þá ekki viss um að hann nærist nægilega vel er þér velkomið að hafa samband við mig í síma 868-6351 og einnig gætirðu hringt í kollega mína sem vinna á Næringarstofu Háskólasjúkrahúss við Hringbraut.Kveðja, Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur