Flökurleiki vegna notkunar Efexor

Spurning:

Góðan daginn.

Nú hef ég verið að nota Efexor við þunglyndi í u.þ.b. 7 mánuði. Ég fann fyrir aukaverkunum á við aukna svitamyndun til að byrja með en svo hvarf það.
Það er svo síðustu tvo mánuði að ég hef fundið fyrir flökurleika. Geta aukaverkanir eins og flökurleiki komið svona allt í einu.
Ég tek það fram að ég hef verið á 300 mg frá 2. mánuði, og ekkert verið aukið eða breytt síðan.

Bestu kveðjur.

Svar:

Algengustu aukaverkanir Efexor eru ógleði og uppköst. Allt að 6% sjúklinga fá þessar aukaverkanir. Þessar aukaverkanir eru skammtaháðar þannig að við háan byrjunarskammt getur tíðni ógleði orðið meiri. Þær minnka venjulega þegar frá líður. Þó að þetta gerist venjulega svona þá er hugsanlegt að eitthvað í umhverfi þínu, mataræði og/eða lífsstíl geti valdið því að þú finnir fyrir flökurleika núna. Ræddu þetta við t.d. lækninn þinn og þá er hægt að ákveða hvort þú þurfir að breyta einhverju hjá þér eða hvort breyta þurfi lyfjameðferðinni.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur