Flugferð á meðgöngu?

Spurning:

Góðan daginn.

Mig langaði til að forvitnast um ferðalög. Ég er komin 26 vikur á leið og mig langar að vita hvort það sé óhætt fyrir mig að fljúga?
Einnig langar mig að vita hvenær maður má fljúga með ungbörn?

Svar:

Sæl.

Það er talið óhætt að fljúga töluvert fram yfir 30 vikna meðgöngu ef allt er eðlilegt. Sum flugfélög óska þó eftir læknisvottorði þess efnis að ekkert bendi til yfirvofandi fæðingar eftir ákveðinn vikufjölda (oft um 34 vikur) sérstaklega í millilandaflugi. Hvað varðar ungbörn má segja að óhætt sé að fljúga með þau um leið og óhætt er að vera með þau á ferðinni – en það er skynsamlegt að lofa þeim að ná 6 til 12 vikna aldri áður en farið er í millilandaflug, ef hægt er, til að þau séu búin að jafna sig vel eftir fæðinguna og hafi orðið sæmilega mótstöðu gegn sýkingum.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir