Fráhvarfseinkenni?

Spurning:
Til þess er málið varðar!Hef verið að taka Seroxat í u.þ.b 5 ár en er núna hætt á því, en áður en ég hætti alveg ,,trappaði" ég niður, þ.e tók 1 töflu annan hvern dag og 1/2 töflu á móti í 2 vikur, fór síðan niður í 1/2 dagl. í 2 vikur, minnkaði á tveggja vikna fresti í samræmi við það sem að framan greinir, er með svima og vantar að hvort hér geti verið um fráhvarfseinkenni að ræða, og þá hve lengi má ég búast við að þau vari. Búin að finna fyrir þessu í 5 daga og hafði þá tekið 1/4 dagl. í 2 vikur.Með von um svör fljótlega.Með fyrirfram þakklæti,
Svar:
Paroxetín sem er virka efnið í Seroxat, er þunglyndislyf af svokölluðum SSRI (serótónín endurupptökuhemlar) flokki. Verkun þeirra felst í því að koma í veg fyrir að boðefnið serótónín hverfi úr taugamótum, og eykst magn þess þar með. Serótónín er nauðsynlegt í ákveðnum hluta taugakerfisins til að taugaboð, sem eru rafboð, berist áfram um taugina yfir taugamótin.Fráhvarfseinkenni SSRI  lyfja eru talin stafa fyrst og fremst af því að þegar skyndilega er hætt að nota lyfið sem eykur magn serótóníns á taugamótum, verður tímabundinn skortur á serótóníni. Einnig er líklegt að næmi viðtaka serótóníns á taugamótunum hafi minnkað við notkun lyfins. Fráhvarfseinkennin eru því í raun einkenni sem stafa af skorti á serótóníni.Því styttri tíma sem það tekur líkamann að losa sig við SSRI lyfið því meiri hætta er á þessum fráhvarfseinkennum. Paroxetín sem er virka efnið í Seroxat og Paroxat, er oftast talið verst hvað þetta varðar þar sem það skilst hratt úr líkamanum. Flúoxetín sem er virka efnið í Fontex, Prozac, Fluoxetin NM Pharma, Flúoxetín Delta, Seról og Tingus skilur hægast út og því síst líklegt til að valda fráhvarfseinkennum. Önnur lyf eru þarna á milli.Fæstir finna fyrir verulegum fráhvarfseinkennum en samt er mælt með því að dregið sé úr skömmtum smám saman þegar meðferð með SSRI þunglyndislyfjum er hætt, á einni til tveimur vikum, til að minnka líkur á hugsanlegum fráhvarfseinkennum.Almennt er ekki talin hætta af fráhvarfseinkennum nema lyfið hafi verið notað í a.m.k. tvo mánuði. Svimi er meðal algengustu fráhvarfseinkenna þessara lyfja.Ef fráhvarfseinkenni koma fram gerist það venjulega 2-3 dögum eftir að töku er hætt þó svo að þetta geti tekið frá einum degi til þriggja vikna. Venjulega standa þessi einkenni yfir í 1-2 vikur þó svo að lengri tími þekkist.Finnbogi Rútur Hálfdanarson lyfjafræðingur