Frumubreytingar í fæðingarbletti?

Spurning:
Ég var hjá hjúðsjúkdómalækni þar sem fjarlægður var fæðingablettur (er með mikið af blettum) og sendur í ræktun. Við rannsókn komu fram fumubreytingar. Hvað þýðir þetta? Hversu mikið eykst hætta á húðkrabbameini ef til staðar eru frumubreytingar og þarf ekki að rannsaka mig þá neitt frekar? Ég fékk tíma í blettamyndatöku, hvað er það og hversu öruggt er það til að ná krabbameini á frumstigi? 
Bestu þakkir og von um skjót svör

Svar:
Komdu sæl. Þakka þér fyrirspurnina.
Eins og ég vænti að húðsjúkdómalæknirinn þinn hafi sagt þér – þá fjarlægði hann fæðingarblettinnn þar sem honum hefur þótt hann líta grunsamlega út m.t.t. frumubreytinga og sent sýnið í vefjagreiningu til að komast að hvers kyns frumurnar í honum eru – góð- eða illkynja frumubreytingar. Oftast eru það góðkynja breytingar sem koma fram við vefjagreininguna. 
Undanfarna áratugi hefur húðkrabbameini fjölgað gífulega svo að húðlæknar tala um að þessu megi jafnvel líkja við faraldur. Er orsakanna m.a. að leita í breyttum lífstíl okkar – með auknum ferðum til sólarlanda og svo ofnotkun okkar á sólarbekkjum.  Það er því mikilvægt að vera vakandi og á varðbergi verði maður þess áskynja ef að blettum er að fjölga – þeir að breyta sér – t.d. stækka eða hlaupa upp – og láta sérfræðing skoða þá og etv. fylgjast með þeim í árlegri skoðun. 
Þegar húðsjúkdómalæknirinn þinn er búinn að taka sýni sem staðfestir frumubreytingar þá vill hann fá að skoða aðra bletti einnig sem og ef til staðar eru m.t.t. frumubreytinga líka í þeim. Hann byrjar þá á að gera blettamyndatöku sem svo er kölluð – þá er hann með skanna að skoða útlitið á þeim og hvort taka þurfi þá líka með aðgerð eins og gert var við fyrsta blettinn.  Það er mikilvægt að greina alla illkynja bletti á frumstigi er þeir liggja grunnt áður en þeir stækka og/eða vaxa neðar í húðina. Ég ráðlegg þér að ræða vel við húðsjúkdómalækninn þinn og fá hjá honum allar frekari upplýsingar varðandi blettina og framvindu mála.  Það er oft gott að skrifa niður á blað allar þær spurningar sem maður er að velta fyrir sér og leita svara við svo ekkert gleymist þegar á stofuna til hans er komið og maður er upptekinn af því sem þá er að gerast.

Bestu kveðjur, Hrönn Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur